Öllum starfsmönnum Ísfisks á Akranesi sagt upp

Uppundir 60 manns hefur verið sagt upp hjá fiskvinnslufyrirtækinu Ísfisk …
Uppundir 60 manns hefur verið sagt upp hjá fiskvinnslufyrirtækinu Ísfisk á Akranesi. mbl.is/Árni Sæberg

Öllum starfsmönnum fiskvinnslufyrirtækisins Ísfisks á Akranesi hefur verið sagt upp störfum frá og með mánaðamótunum. Um tæplega 50 manns er að ræða. Þetta kemur fram á vef Verkalýðsfélags Akraness, samkvæmt upplýsingum frá formanni félagsins.  

„Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins, að allar uppsagnir væru gerðar með fyrirvara um að fyrirtækinu takist að endurfjármagna sig, en til þessa hefur það ekki tekist, en sú vinna er enn í gangi,“ segir í frétt Verkalýðsfélagsins. 

Stór hluti þeirra sem hefur verið sagt upp hjá Ísfiski fékk einnig uppsagnarbréf þegar HB Granda var lokað og allri starfsemi á Akranesi hætt árið 2017. 

„Formaður telur einsýnt að bæjarbúar á Akranesi þétti nú raðirnar, því við getum ekki endalaust látið fara svona með okkur þegar kemur að atvinnuöryggi og lífsviðurværi bæjarbúa,“ segir ennfremur. 

Uppfært kl. 18.15

Tæplega 50 manns var sagt upp en ekki um 60 eins og greint var fyrst frá. Leiðréttist það hér með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert