Farþegum gert að afsala sér bótarétti

Farþegar voru ósáttir með framgang flugfélagsins en þeir þurfa að …
Farþegar voru ósáttir með framgang flugfélagsins en þeir þurfa að koma sér á áfangastað sjálfir.

„Farþegum var algjörlega stillt upp við vegg. Þú þurftir annað hvort að setjast niður og fara aftur til Krakár eða skrifa undir plaggið þar sem þú afsalar þér þínum réttindum,“ segir Jórunn Edda Helgadóttir.

Hún var farþegi í flugi Wizz Air frá Kraká í Póllandi sem lenti á Egilsstaðaflugvelli í dag eftir að hætt var við lendingu á Keflavíkurflugvelli. Farþegum sem ákváðu að fara út á Egilsstaðaflugvelli var gert að skrifa undir plagg þar sem þeir afsöluðu sér rétti sínum til bóta, ella yrði brottför þeirra tilkynnt sem öryggisbrot. RÚV greindi fyrst frá. 

„Ég er komin út úr vélinni núna. Ég komst hjá því að skrifa undir. Flugþjónninn eiginlega bakkaði út úr því að láta mig skrifa undir þegar hann skildi að ég væri að tala við fréttamiðla um þetta. Hann sagði á endanum að hann gæti ekkert gert og lofaði mér því að hann myndi ekki tilkynna mig eins og hann var að hóta,“ segir Jórunn í samtali við mbl.is.

Formið sem farþegum var gert að skrifa undir og fylla …
Formið sem farþegum var gert að skrifa undir og fylla út með nafni og vegabréfsnúmeri. Ljósmynd/Aðsend

Villt um fyrir farþegum

Langflestir skrifuðu undir plaggið, að sögn Jórunnar, þó einhverjir hafi sleppt því. 20-30 manns ákváðu að fara aftur til Krakár.

Jórunn segir að fólk hafi jafnvel ekki vitað hvað það var að skrifa undir. „Þau sögðu fyrst að ég væri bara að skrifa undir að þarna ætlaði ég út. Ég sagði þeim að þetta liti alls ekki þannig út heldur frekar þannig að ég ætlaði að afsala mér mínum réttindum og flugþjónninn viðurkenndi að svo væri,“ segir Jórunn. 

Bílaleigubílarnir að klárast

Á plagginu segir: „Ég staðfesti hér með að það er mín ákvörðun að yfirgefa flugferð mína með ofangreindu flugi og ég dreg mig út úr samningi við Wizz Air sem laut að því að koma mér á upphaflega staðsetningu.“

Jórunn situr nú með kaffibolla á Egilsstaðaflugvelli. Farþegunum var gert að koma sér á áfangastað upp á eigin spýtur og flugvél Wizz Air virðist vera farin. 

„Það er búin að vera löng röð í bílaleigubílana og þeir eru að verða búnir núna. Ég heyrði frá starfsmönnum flugvallarins að það væri verið að skoða það að redda rútu og eitthvað en ég veit ekkert meira um það,“ segir Jórunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert