„Við erum allstaðar, alhliða björgunarmenn“

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sýnir nýjan slökkvi- og tæknibúnað.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sýnir nýjan slökkvi- og tæknibúnað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Námsstefna slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hófst í dag og stendur yfir fram yfir helgina. Á ýmsu verður tekið á námsstefnunni, meðal annars gróðureldum, efnaslysum, hópslysum í dreifbýli og kynningu á nýjum slökkvibúnaði. Þátttakendur verða á bilinu 250 til 300. 

„Námsstefnan tengist málefnum slökkviliðsmanna, sjúkraflutningamanna, neyðarvarna og í raun allra þeirra sem að utanspítalaþjónustu og björgunarmálum koma,“ segir Jón Pétursson, námsstefnustjóri í samtali við mbl.is. 

„Þetta er hugsað til þess að auka þekkingu hópsins, til að mynda tengsl innan hans og njóta samverunnar. Fyrir suma er þetta líka til að mynda frekari tengsl og fá aðstoð, til dæmis minni slökkvilið að fá aðstoð frá stærri og öflugri slökkviliðum við þjálfun og annað,“ segir Jón. 

Alhliða fyrirlestrar fyrir alhliða björgunaraðgerðir

Námsstefnan hófst í morgun með ávarpi forseta Íslands. Fjölbreytt dagskrá var á námsstefnunni í dag og má þar meðal annars nefna sýningu á nýjum slökkvi- og tæknibúnaði slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. 

„Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var að fá fjóra nýja bíla með nýjum slökkvibúnaði sem við erum að sýna auk þess sem við sýnum nýjan tæknibúnað sem gerir slökkviliðsmönnum kleift að skera sig í gegnum veggi á brennandi húsum. Það getur haft mikið að segja, sérstaklega ef vettvangurinn er mjög hættulegur, þá þarf ekki að vera að hætta á að senda inn reykkafara,“ segir Jón. 

Fjölmargir fyrirlestrar verða á námsstefnunni. Fyrirlesarar koma víða að, meðal annars frá Svíþjóð og Bretlandi, auk þess sem ýmsir íslenskir sérfræðingar verða með erindi. 

Má þar meðal annars nefna fyrirlestur Auðbjargar Brynju Bjarnadóttur, sem hlaut fálkaorðuna í júní fyrir störf sín í þágu heilbrigðis- og öryggismála. Jón segir mikilvægt að slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn á höfuðborgarsvæðinu fái innsýn í þær aðstæður sem skapast í dreifbýli þegar stórslys verða þar sem langt er í aðstoð. Auðbjörg var með fyrstu mönnum á vettvang þegar banaslys varð við Núpsvötn í lok síðasta árs, auk þess sem hún var fyrst á vettvang þegar rúta valt við Kirkjubæjarklaustur í lok árs 2017. 

Þátttakendur á námsstefnunni fylgjast með sýningu nýja búnaðarins.
Þátttakendur á námsstefnunni fylgjast með sýningu nýja búnaðarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá mun Dave Green, fagstjóri Landssambands breskra slökkviliðsmanna, fjalla um þær aðstæður sem sköpuðust í stórhýsabrunanum í London 2017, en 72 létust þegar kviknaði í Grenfell-turninum. 

Á meðal annarra fyrirlestra má nefna fyrirlestur um hvenær hætta skuli endurlífgun utan spítala, fyrirlestur um fíkla og fíkniefni og ýmislegt annað. 

„Þemað hjá okkur er að það er ekkert þema. Við erum allstaðar, alhliða björgunarmenn. Á vakt fyrir Ísland heitir þessi viðburður og kemur til með að heita til frambúðar.“

Nýi búnaðurinn sýndur á námsstefnunni.
Nýi búnaðurinn sýndur á námsstefnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is