„Þetta eru manneskjur, ekki bara vinnuafl“

Ljósmynd/Aðsend

Ef innflytjendur eru ekki tengdir við samfélagið og þeir ekki boðnir velkomnir skapast félagsleg vandamál sambærileg þeim sem Danmörk, Svíþjóð og Þýskaland kljást enn við. Þetta segir Hein de Haas, prófessor í félagsfræði við Háskólann í Amsterdam og aðalfyrirlesari Þjóðarspegilsins sem hefst á morgun. 

Haas er prófessor í félagsfræði við Háskólann í Amsterdam. Hann flytur erindið „International Migration: Myths and Facts“ í Hátíðarsal Háskólans klukkan 9.30 á morgun.

Í fyrirlestrinum mun Haas setja erlent starfsfólk á Íslandi í alþjóðlegt samhengi.

„Ég held að það sé skýrt að stærstur hluti búferlaflutninga er drifinn af efnahagslegum ástæðum. Ísland hefur staðið frammi fyrir miklum vexti á síðustu árum sem kallar á meira vinnuafl. Það eru sterk tengsl á milli efnahagslegs vaxtar og innflutnings fólks.“

Vinnuveitendur þrýsti á fólksflutninga

Spurður hvort innflutningur vinnuafls geti haft neikvæð áhrif á samfélagið segir Haas:

„Hafa ber í huga að þetta eru manneskjur, ekki bara vinnuafl. Mistökin sem eru gjarnan gerð er að horfa einungis til þess að landið þurfi vinnuafl en auðvitað þarf að taka með í reikninginn að þarna er um manneskjur að ræða.“

Haas bendir á að samfélög séu gjarnan ekki tilbúin fyrir þann fólksfjölda sem efnahagsuppgangur kallar á.

„Það sem gerist oft er að vinnuveitendur og fyrirtæki þrýsta á yfirvöld til að fleira fólki sé hleypt inn í landið. Auðvitað er það mikið hagsmunamál fyrir vinnuveitendur að hafa nóg af fólki sem getur unnið fyrir þá en sem samfélag þá þurfa lönd að gera sér grein fyrir því að þarna er um manneskjur að ræða, manneskjur sem koma gjarnan með fjölskyldur sínar.“

Fólk setjist oft að

Haas segir að sagan sýni að fólk sem flytur út fyrir heimalandið í leit að vinnu setjist gjarnan að í þeim löndum sem það sótti sér vinnu í. 

„Það er mikilvægt að ímynda sér ekki að fólk komi einungis tímabundið hingað til lands vegna þess að sagan segir okkur að svo sé ekki. Samfélagið þarf að vera undirbúið fyrir það að fólk sem kemur hingað sem erlent vinnuafl setjist hér að. Við höfum séð stórar breytingar í evrópskum fólksflutningum og Evrópusambandið hefur reynt að opna enn frekar á fólksflutninga innan Evrópu og Ísland verður líka fyrir áhrifum af því þar sem það er innan EES.“

Haas segir að Íslandi hafi tekist nokkuð vel upp í sínum innflytjendamálum.

„Það er erfitt að segja hvort innflutningur vinnuafls sé jákvæður eða neikvæður því ef stefnan í þessum málum er ekki úthugsuð eða ef þú gerir ráð fyrir því að fólk dvelji einungis á landinu tímabundið þá mun það koma þér í opna skjöldu að raunin sé ekki sú. Fólk endar gjarnan á því að setjast að og samfélagið þarf að vera undirbúið fyrir það. Eins og ég sé það þá hefur Íslandi gengið nokkuð vel í að tengja innflytjendur við samfélagið,“ segir Haas.

„Á meðan réttindi innflytjenda eru virt þá geta fólksflutningar verið mjög jákvæðir fyrir samfélagið,“ bætir Haas við. 

Innfæddir neita störfum sem skilja eftir skarð

Hann telur óumflýjanlegt að fólk flytji á milli landa í leit að vinnu. 

„Það sem þú sérð í öllum evrópskum löndum er að innfæddir eru farnir að sanka að sér meiri og meiri kunnáttu og fagþekkingu og það eru mörg störf sem innfæddir vilja ekki lengur ganga í og innflytjendur fylla gjarnan í þau skörð, það er á einhvern hátt óumflýjanlegt.“

Haas bendir á að samfélagsleg vandamál sem skapast hafi vegna innflytjenda séu helst tilkomin vegna þess að samfélagið hafi ekki verið tilbúið í að taka á móti þeim. 

„Auðvitað á að skapa innflytjendum aðstæður þar sem þeir geta fundið sér vinnu og forðast mismunun. Án þess skapast félagsleg vandamál til lengri tíma litið. Það er það sem mislukkaðist á fyrri áratugum. Á áttunda áratugnum í vestur Evrópu var komið fram við fjölda innflytjenda sem erlenda verkamenn sem væru einungis gestir og myndu að lokum flytja aftur til „síns heima“. Enginn hugsaði út í þarfir þeirra sem beindust að því að tengjast samfélaginu. Það skapaði útilokun innflytjenda og félagsleg vandamál sem mörg lönd eins og Þýskaland en einnig Svíþjóð og Danmörk eru enn að kljást við. Í mínum skilningi þá er það hvernig Ísland tæklar fólksflutninga til landsins mun skynsamlegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert