„Sjáðu hvað ég hef gert“

Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms í síðustu viku og úrskurðaði …
Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms í síðustu viku og úrskurðaði manninn í varðhald til 22. nóvember vegna grófrar árásar á kærustu sína. mbl.is/Hallur Már

Árás rúmlega tvítugs karlmanns gegn kærustu sinni, sem er enn barn að aldri, ber með sér að hafa verið mjög gróf og harkaleg og að stúlkan kunni að hafa verið í lífshættu á meðan á árásinni stóð, þótt áverkarnir sem slíkir hafi ekki verið taldir lífshættulegir. Þetta er er meðal þess sem kemur fram í skýrslu réttarmeinafræðings og vísað er til í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum. Árásin átti sér stað fyrir um tveimur vikum síðan. Landsréttur sneri úrskurði héraðsdóms við, sem hafði áður ekki talið ástæðu til að hneppa manninn í varðhald. Var úrskurðurinn birtur í dag, en lögreglan hafði áður upplýst um úrskurð Landsréttar.

Beindist sérstaklega að höfði og andliti

Í rökstuðningi Landsréttar er vísað í skýrslu réttarmeinafræðingsins þar sem segir að áverkarnir vitni um „mörg högg, líklega einhver spörk og að mögulega hafi verið stappað á andlitinu, og að þessar aðfarir hafi sérstaklega beinst að höfði og andliti, ásamt því að tekið hafi verið um hálsinn og þrengt að“. Þá komi einnig fram að útlit áverka á hálsi bendi „sterklega til þess að þeir hafi orðið fyrir umlykjandi þrýsting gagnvart hálsinum“ og að þeir bendi „til taks annars manns um hálsinn, líklega með hendi en áverkarnir eða hluti þeirra gæti einnig skýrst af hálstaki með handlegg“.

Hafi verið í lífshættulegu ástandi

Réttarmeinafræðingurinn segir um áverka á höfði stúlkunnar að ef meðvitundarskerðing hafi orðið í drjúga stund megi þannig segja að hún hafi verið sett í lífshættulegt ástand og ekki sjálf getað varið loftvegi sína. Því hafi verið hætta á köfnun, meðal annars vegna þess blóðs sem ætla má að komið hafi inn í kokið. Einnig bendi alvarlegir áverkar á háls til þess að stúlkan hafi verið í lífshættulegu ástandi vegna yfirvofandi blóðþurrðarskaða í miðtaugakerfinu.

Tekur Landsréttur fram að í dómaframkvæmd hafi verið lagt til grundvallar að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn sem sterklega eru grunaðir um svo alvarlegt ofbeldisbrot gangi ekki lausir. Með vísan til alvarleika árásarinnar sem maðurinn er grunaður um er því fallist á kröfu lögreglunnar um gæsluvarðhald til 22. nóvember.

Hélt á stúlkunni yfir Geirsgötu frá hafnarsvæðinu

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, sem hafði hafnað beiðni um varðhald, að tilkynnt hafi verið um stúlkuna blóðuga í Geirsgötu aðfararnótt laugardagsins 19. október. Hafði vegfarandi séð manninn halda á stúlkunni yfir Geirsgötuna frá hafnarsvæðinu.

Lögregla skildi fólkið að, en maðurinn sagði meðal annars að um væri að ræða „dramatísk sambandsslit.“ Þá kemur fram að hann hafi marg oft haft uppi ummælin „sjáðu hvað ég hef gert.“

Sagðist hafa gert „eitthvað ljótt“

Stúlkan var ekki í ástandi fyrir formlega skýrslutöku á staðnum, en upplýsti hjúkrunarfræðing, þegar komið var á slysadeild, að maðurinn hafi veitt henni áverkana. Var stúlkan með mikla áverka, meðal annars með stór glóðaraugu báðum megin og gat hún ekki opnað augun. Samkvæmt bráðabirgðavottorði sérfræðilæknis kom fram að stúlkan var með augnatóftargólfsbrot báðum megin, nefbeinsbrot, opið sár á höfði auk yfirborðsáverka og maráverka víðsvegar um líkamann.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu sagði maðurinn að hann hefði munað eftir að hafa gert „eitthvað ljótt“ en bar að mestu við minnisleysi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert