Börn taki meiri þátt í stefnumótun

Laura Lundy, prófessor við Queen's háskóla í Belfast, Salvör Nordal, …
Laura Lundy, prófessor við Queen's háskóla í Belfast, Salvör Nordal, umboðsmaður barna á Íslandi, Carmel Corrigan, sérfræðingur hjá umboðsmanni barna á Írlandi og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Laura Lundy, prófessor við Queen‘s háskóla í Belfast og sérfræðingur í þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku, var gestur á sérstakri vinnustofu sem umboðsmaður barna í dag í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og stýrihópa stjórnarráðsins um mannréttindi og málefni barna. Carmel Corrigan, sem er sérfræðingur hjá umboðsmanni barna á Írlandi, var jafnframt gestur vinnustofunnar og sagði frá aðgerðaráætlun Írlands til fimm ára um samráð við börn sem samþykkt var árið 2015.

Tilefni heimsóknar þeirra er að nú fer fram vinna við mótun aðgerðaráætlunar um aukna þátttöku barna í stefnumótun en Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fól umboðsmanni barna að vinna slíka áætlun með samningi sem gerður var í apríl síðastliðinn. Samningurinn byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 1. mars 2019 þar sem segir að stefnt verði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda sem og að allar stærri ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna.

Ásmundur Einar ávarpaði gesti vinnustofunnar og sagði, samkvæmt fréttatilkynningu: „Ef við ætlum okkur raunverulega að styrkja hlutverk barna og ungmenna í samfélaginu og tryggja þátttöku þeirra við stefnumótun og ákvarðanatöku þurfum við að ganga lengra en að gefa börnum orðið við hátíðleg tækifæri. Við þurfum skýrar breytingar sem tryggja samstarf við börn og að raddir þeirra heyrist, ekki bara í málum er þau varða heldur öðrum líka. Við þurfum að hlusta á tillögur þeirra og sjónarmið, taka þær alvarlega og gera að veruleika. Í raun ættum við ekki að tala um þátttöku barna heldur samstarf við ákvarðanatöku.”

Í vinnustofunni gafst þátttakendum kostur á að deila reynslu af farsælu samráði við börn eða koma með hugmyndir að því hvernig slíku samráði sé best háttað hjá stjórnvöldum, opinberum stofnunum og sveitarstjórnum. Þessar hugmyndir verða síðan nýttar í vinnu við aðgerðaráætlun stjórnvalda um þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert