Segir lýðræðið hætt að virka sem skyldi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á fundinum í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á fundinum í dag. Ljósmynd/Miðflokkurinn

„Vandinn sem við stöndum nú frammi fyrir hér á landi og víðar er að lýðræðið er hætt að virka sem skyldi. Kerfið ræður,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins á haustfundi fulltrúarráðs flokksins sem haldinn var í dag. 

„Hlutverk kerfisins á að vera að þjónusta almenning, ráðleggja stjórnmálamönnum og framfylgja lýðræðislegum ákvörðunum. Ekki að stjórna. Ekki að hafa vald án lýðræðislegrar ábyrgðar,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni í upphafi fundarins. 

Fundurinn fór fram í Reykjanesbæ og var vel mætt. 

Vildi ljúka tali um ríkisstjórnina af

Í ræðu sinni talaði Sigmundur meðal annars um ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, en kjörtímabil stjórnarinnar er hálfnað nú í mánuðinum.

„Það er alltaf skemmtilegra að tala um áherslur og lausnir eigin flokks en að ræða hvað aðrir eru að gera vitlaust. Samhengisins vegna kemst ég þó ekki hjá því að segja nokkur orð um ríkisstjórnina og það stjórnarfar sem við búum við. Stjórnarfarið sem tekist verður á um í næstu kosningum. Ætli sé ekki best að ljúka því bara af strax í upphafi ræðunnar,“ sagði Sigmundur. 

Sagði hann það hafa verið ljóst strax frá upphafi að núverandi ríkisstjórn yrði kerfisstjórn og að hún hafi raunar skilgreint sig þannig sjálf. Þá sagði hann fátt í stefnu ríkisstjórnarinnar og aðgerðum hennar gefa til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn væri stærsti stjórnarflokkurinn. 

„Hvað eftir annað láta þeir sig hafa það að styðja mál sem ganga ekki aðeins gegn stefnu flokksins heldur grundvallarhugsjónum, séu þær enn til staðar. Þeir kyngja ælunni eins og einn þingmaður flokksins orðaði það. Þó er ekki víst að þeir þurfi allir að sætta sig við slíkt mataræði því stór hluti flokksins virðist gleypa það sem Sjálfstæðismenn hefðu áður talið óætt af bestu lyst,“ sagði Sigmundur. 

„Það er nokkuð um liðið síðan ég fór að velta fyrir mér hvaða munur væru á stefnu og orðræðu Sjálfstæðisflokksins nú og áherslum Samfylkingarinnar sirka 2007. Ég hef ekki enn fundið þennan mun en ég held áfram að leita.“

Segir Framsókn hafa snúist gegn stefnumálum sínum

Sigmundur sagði Vinstri græn nálgast stjórnarsamstarfið á annan hátt. 

„Ráðherrar þeirra virðast hafa frítt spil til að innleiða eigin áhugamál. Hvort sem það er innleiðing á marxísku heilbrigðiskerfi eða tilraunir til að koma í veg fyrir framkvæmdir á Íslandi og auðvitað alveg sérstaklega á Vestfjörðum þar sem enginn má gera neitt. Forsætisráðherrann fær hinn stjórnarflokkinn líka til að samþykkja sín sérstöku áhugamál, til dæmis með lögum um fóstureyðingar sem myndu teljast róttæk í Hollandi þótt löggjöfin hafi ekki gengið eins langt og forsætisráðherrann hefði viljað. Vinstri græn fá meira að segja að endurskipuleggja ráðherralið Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Sigmundur. 

Ljósmynd/Miðflokkurinn

Þá sagði Sigmundur að Framsóknarflokkurinn hafi ekki aðeins gleymt helstu stefnumálum sínum heldur beinlínis snúist gegn þeim. 

„Það verður ekki betur séð en að sá flokkur hafi þróast nákvæmlega eins og ég sagðist óttast að stefndi í á haustmánuðum 2017. Þar sem viðskiptamódel flokksins yrði það að ráðast í mikla og dýra kosningaherferð fyrir hverjar kosningar með það að markmiði að ná inn nógu mörgum mönnum til að komast í ríkisstjórn með hverjum sem er um hvað sem er. Fá tvo, þrjá ráðherrastóla og geta útdeilt embættum til réttra aðila,“ sagði Sigmundur.

Meiri áhyggjur af íslenskum bændum en finnskum skógarbændum

Þá sagði Sigmundur að mikilvægt væri að standa með helstu atvinnugreinum þjóðarinnar og lagði hann einkum áherslu á landbúnað í því samhengi. 

„Á síðustu misserum hefur verið sótt að íslenskum landbúnaði úr að minnsta kosti þremur áttum. Greinin hefur þá sérstöðu að bændur eru eina stéttin sem stjórnvöld stefna að því að fái lækkandi tekjur á næstu árum. Hvergi annars staðar gera stjórnvöld ráð fyrir að greiða jafnt og þétt minna fyrir keypta þjónustu. Í öðru lagi hefur nýlegur tollasamningur reynst afar skaðlegur fyrir greinina.

„Loks hefur verið ákveðið að heimila innflutning á ófrystum og ógerilsneiddum matvælum í samkeppni við íslenska bændur sem á sama tíma þurfa að uppfylla strangari kröfur kerfisins en nánast alls staðar annars staðar í heiminum. Loks bætist það við að hópar fólks, jafnvel heill flokkur í ríkisstjórn, eru farnir að beita sér gegn neyslu matvælanna sem íslenskir bændur framleiða,“ sagði Sigmundur. 

„Þegar Vinstri hreyfingin grænt framboð ákvað að banna pappír og kjöt á fundi sínum hafði ég dálitlar áhyggjur af finnskum skógarbændum en þó mun meiri áhyggjur af bændunum sem hafa haldið uppi byggð á Íslandi frá landnámi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert