Fjórum skipverjum bjargað

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kom skipverjum til bjargar.
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kom skipverjum til bjargar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar bjargaði fjögurra manna áhöfn fiskibáts sem strandaði við Gölt á á utanverðum Súgandafirði seint í gærkvöld. Reynt verður að bjarga bátnum í dag og er varðskip á leiðinni vestur. 

Að sögn varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar voru aðstæður erfiðar á vettvangi þar sem ekki reyndist unnt fyrir björgunarskip að komast nálægt strandstað frá sjó sökum brims og voru björgunarsveitir þá sendar landleiðina frá norðanverðum Súgandafirði. Mjög erfitt hefði verið að bjarga skipverjum af landi og var TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar þegar í stað kölluð út sem og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á norðanverðum Vestfjörðum. 

Varðskipið Týr er á leið á strandstað og að sögn varðstjóra má búast við að það verði komið þangað á milli 9 og 10. Háflóð er klukkan 9 en mjög mikið brim er þrátt fyrir gott veður. Ekki er vitað hvort takist að bjarga bátnum við fyrstu tilraun en það sem skiptir öllu er að öllum skipverjum var bjargað heilum á húfi. 

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá bátnum klukkan 22:00 en fjórir voru um borð, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

„Báturinn skorðaðist skorðaðist fljótlega á milli kletta og braut nokkuð á honum. Hægur vindur var á svæðinu og þó nokkur alda,“ segir í tilkynningu.

TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á vettvang klukkan 23:42 og áhöfn hennar hófst þegar handa við að bjarga skipverjunum fjórum um borð í þyrluna. Á miðnætti var búið að bjarga mönnunum, heilum á húfi, um borð í þyrluna. Þeir voru fluttir til Ísafjarðar, segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert