„Íslenskan er alltaf í hættu“

Karl Ágúst Úlfsson og listafólkið, sem hann „hristir eitthvað saman“ …
Karl Ágúst Úlfsson og listafólkið, sem hann „hristir eitthvað saman“ í Gamla bíói í dag, vilja að íslenskan sé notuð á öllum sviðum þjóðlífsins, þar á meðal á samskiptamiðlunum þar sem enskan vill trana sér fram. Eggert Jóhannesson

„Ja, það er nú kannski fullvirðulegt að vera að eigna mér þennan viðburð,“ segir Karl Ágúst Úlfsson, leikstjóri, rithöfundur, þýðandi, formaður Rithöfundasambands Íslands og um áratugi einn ástsælasti gamanleikari þjóðarinnar, krafinn sagna um hlutverk hans sem stjórnanda hóps listamanna sem fram koma á hátíðarhöldum í Gamla bíói í dag í tilefni Dags íslenskrar tungu.

Karl Ágúst leikstýrir hópnum, er raunar titlaður listrænn stjórnandi hans, en vill sem minnst gera úr hlutverki sínu. „Já já, ég var nú bara fenginn svona til að hrista þetta saman eitthvað,“ segir hann af alkunnri hógværð.

„Við viljum að íslenskan sé notuð á öllum sviðum þjóðlífsins, þar á meðal á samskiptamiðlunum sem ungt fólk er mikið með í notkun, þar er enskan svolítið ríkjandi,“ útskýrir Karl Ágúst, en í kynningarbréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem snýr að dagskránni í dag er greint frá því að fulltrúar ýmissa listgreina muni túlka móðurmálið og stöðu þess á tímum sívaxandi áhrifa frá ensku.

Karl segir boðskap flytjendanna í raun vera þann, að íslenskan sé algjörlega fullgild á þessu sviði sem öllum öðrum, „bara ef við nennum og sinnum þessu af einhverju viti,“ eins og hann orðar það.

Flestar góðar, sumar frábærar

„Þetta byrjaði nú allt saman þannig að þessar indælu konur sem eru nú lykilmanneskjur í þessu verkefni, hún Eva María [Jónsdóttir] hjá Árnastofnun og Helga Guðrún Johnson frá menntamálaráðuneytinu, kölluðu saman samráðshóp, fjölda fólks víðs vegar að, en allt mikið áhugafólk um íslensku og þekkt fyrir að beita henni vel og frumlega,“ segir leikstjórinn um aðdraganda verkefnisins í ár, 24. árið sem Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur.

Samráðshópurinn lagði öll höfuð í bleyti og eins og við var að búast skaut fjöldi hugmynda upp kollinum. „Flestar hugmyndir reyndust mjög góðar, sumar frábærar, en ekki allar framkvæmanlegar,“ segir Karl og bætir því við að næsti hluti vinnunnar hafi verið að móta þær hugmyndir sem urðu fyrir valinu, skoða hvernig mætti koma þeim á svið og sýna þær fólki.

Á æfingu í Gamla bíói á miðvikudaginn. Í öndvegi situr …
Á æfingu í Gamla bíói á miðvikudaginn. Í öndvegi situr listræni stjórnandinn ábúðarfullur á svip. Að baki honum, frá vinstri til hægri, eru Eva María Jónsdóttir, verkefnisstjóri frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Aron Valur Gunnlaugsson, lestrarhestur úr Mosfellsbæ, Jakob Birgisson uppistandari, Trausti Dagsson, annar verkefnisstjóri frá Árnastofnun, Vilhelm Neto, skemmtari og leikari, og Helga Guðrún Johnson, þriðji verkefnisstjórinn, en frá menntamálaráðuneytinu í þetta sinnið. Eggert Jóhannesson

Verkefnið þar á eftir hafi svo verið að finna út hvaða aðilar og eftir atvikum listamenn þættu kjörnir til að sýna tungumálið, í því ljósi sem ætlunin var, og nú þegar upp er staðið verða það Aron Valur Gunnlaugsson, sigurvegari Mosfellsbæjar í Stóru upplestrarkeppni grunnskólanna, hljómsveitin Hundur í óskilum, spéfuglinn og leikarinn Vilhelm Neto, Jakob Birgisson uppistandari, Þuríður Blær leikkona og tónlistarfólkið Auður og GDRN, eða Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eins og hún kallast í þjóðskrá.

Verður bara taugaveiklaður baksviðs

Karl Ágúst segir alla þá, sem leggja munu gjörva hönd á plóg á sviði Gamla bíós í dag, þegar í byrjun hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga. „Það er eiginlega mjög ánægjulegt hvað til dæmis ungir íslenskir listamenn og ungir íslenskir áhrifavaldar eru áhugasamir um íslensku. Stundum kvikna einhverjar áhyggjur af því að íslenskan eigi undir högg að sækja, eins og til dæmis á þessum samskiptamiðlum, en inn á milli er mjög öflugur hópur ungs fólks sem notar tungumálið á mjög skemmtilegan og skapandi hátt og hefur í raun bara mikinn áhuga á íslensku,“ segir hann.

Þátttakendurnir í dag hafi hvort tveggja komið með eigin hugmyndir að framlögum eða samráðshópurinn sett fram ákveðnar óskir sem almennt hefðu fallið í kramið. Karl segir ýmissa grasa kenna í þessari 25 mínútna löngu dagskrá sem sé auðvitað bara hluti af lengri hátíðardagskrá móðurmálsins ástkæra. „Þetta er tónlist, talað mál, ljóðalestur, einhvers konar uppistand og myndskeið á skjá,“ segir listræni stjórnandinn sem sjálfur stígur þó ekki á svið. „Ég held að ég verði bara svona tiltölulega taugaveiklaður baksviðs,“ segir Karl Ágúst og hlær.

Gaman að vinna með íslensku, sama úr hvaða átt

Útilokað er að sleppa reynslubolta af hlaupvídd Karls Ágústs Úlfssonar án þess að inna hann eftir tilfinningum hans í garð þess að hafa haft íslenska tungu sem sinn helsta atgeir áratugum saman í starfi sínu.

„Ég náttúrulega væri ekki í þessum bransa nema fyrir það að þetta er stórt mál fyrir mér. Íslenskan er alveg einstakt tungumál. Ég hef reyndar skrifað töluvert mikið á ensku líka, en það er bara allt annað mál og kannski ólíku saman að jafna með tungumál sem ég er ekki alinn upp við og er ekki mitt móðurmál,“ segir Karl og rifjar upp meistaranám sitt í leikritun og handritagerð við Ohio-háskóla í Aþenu í Ohio vestanhafs árin 1992 til '94.

„Öll veröldin er leiksvið,“ skrifaði William Shakespeare og mætti ætla …
„Öll veröldin er leiksvið,“ skrifaði William Shakespeare og mætti ætla að hann hafi þar haft Karl Ágúst Úlfsson í huga sem hefur býsna marga fjöruna sopið á fjölunum og kemst, eins og hann segir í þessu spjalli, aldrei langt frá leikhúsinu. Eggert Jóhannesson

„Íslenskan er óskaplega frjótt tungumál sem býður upp á endalausa möguleika – það eru svo miklar óravíddir sem tungumálið nær yfir,“ segir leikstjórinn og snýr talinu að íslenskunni sem leikhúsmáli sem að hans viti sé einstaklega gefandi. „Það er mjög gaman að vinna með hana, hvort tveggja sem höfundur og leikari, það er eiginlega sama hvar maður kemur að borðinu,“ segir Karl og talar þar augljóslega af reynslu.

Tekur hann þá undir áhyggjuraddir um að íslensk tunga sé milli steins og sleggju í einhvers konar Netflix- og YouTube-holskeflu 21. aldarinnar sem nú er gjarnan stillt upp sem mögulegri ógn?

„Íslenskan er alltaf í hættu, auðvitað, þetta er örtungumál. Ég er hins vegar ekkert mjög svartsýnn, íslenskan hefur oft verið í vanda sem er alveg sambærilegur við þann sem við stöndum frammi fyrir í dag, þar sem erlend áhrif eru sterk og ákveðnir hópar hafa tilhneigingu til að halla sér að öðrum tungumálum en íslenskunni. En alltaf hefur hún nú einhvern veginn risið úr öskustónni og ég held að ef við höldum vöku okkar og höldum áfram að rækta íslenskuna, rækta tilfinningu fyrir málinu og nota það á öllum sviðum og á sem fjölbreyttastan og frumlegastan hátt þá held ég að hún haldi alltaf velli,“ segir Karl Ágúst Úlfsson.

Með söngleik í smíðum ásamt Þorvaldi Bjarna

Karl gegnir sem fyrr segir stöðu formanns Rithöfundasambands Íslands en lítið kemur á óvart þegar hann segist auk þess vera með mörg járn í eldinum. „Svo er ég að skrifa eitt og annað og ég einhvern veginn kemst nú aldrei langt frá leikhúsinu. Ég er akkúrat núna að undirbúa leikstjórnarverkefni þar sem ég er að fara að leikstýra mínum eigin söngleik sem ég skrifaði sjálfur ásamt Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni og við ætlum að setja upp í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ,“ segir Karl Ágúst frá og blaðamanni hlýnar að innan enda stúdent úr skólanum fyrir rúmum 25 árum.

„Þetta er mjög metnaðarfullt leikfélag sem starfar í skólanum og við ætlum að láta þetta verða að veruleika, þennan söngleik sem heitir Reimt og við byrjuðum að vinna 2008 og þessu ætlum við að reyna að koma á fjalirnar í mars á næsta ári,“ segir höfundurinn vongóður.

Áður en reimleikarnir hefjast í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á útmánuðum stígur þó hópur Karls Ágústs á svið Gamla bíós í dag og sýnir okkur inn í óravíddir móðurmálsins á Degi íslenskrar tungu. Við spyrjum að leikslokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert