Þrjár bílveltur á sama klukkutímanum

Allir farþegar sluppu með minniháttar meiðsl. Mynd úr safni.
Allir farþegar sluppu með minniháttar meiðsl. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Þrjár bílveltur urðu á sama klukkutímanum í kvöld beggja vegna við Egilsstaði þegar ísing myndaðist skyndilega á bílveginum. Farþegar bílanna sluppu allir með minni háttar meiðsl og voru fluttir með sjúkrabíl til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Austurlands. 

Slysin urðu milli klukkan 20 og 21 í kvöld. Skyndileg ísing varð á hringveginum þegar hiti var um frostmark og mikill raki í loftinu svo glæraísing myndaðist á veginum.  

Í tveimur bílanna var ökumaður einn á ferð og í þeim þriðja var farþegi með ökumanni á ferð, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. 

Vegagerðinni var gert viðvart og gripið var til viðeigandi ráðstafana og vegurinn hálkuvarinn. Á vef Vegagerðarinnar er varað við flughálku í Jökuldalnum því rakt er í lofti og hitastig um frostmark. Sums staðar annars staðar á landinu er varað við hættu á ísingu en annars er vetrarfærð víða um land og hálkublettir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert