Vél Delta lenti í Keflavík vegna reyks um borð

Vél Delta á leið frá Minneapolis til Amsterdam var snúið …
Vél Delta á leið frá Minneapolis til Amsterdam var snúið við og henni beint til Íslands eftir að tilkynning barst um reyk um borð. Mynd úr safni. Mynd/Delta Air Lines

Tilkynnt var um reyk í vél bandaríska flugfélagsins Delta á áttunda tímanum og henni beint til Íslands, en vélin var á leið frá Minneapolis til Amsterdam. Vélin er af gerðinni Airbus A330. 

RÚV greindi frá og segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is að vélin muni lenda á Keflavíkurflugvelli um klukkan átta. Talsverður viðbúnaður er á vellinum vegna þessa.

Brunavarnir Suðurnesja hafa sent bíla á Keflavíkurflugvöll og björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu, líkt og viðbragðsáætlanir kveða á um að sögn Guðjóns. Þá hefur flugslysaáætlun verið virkjuð. 

Fylgjast má með ferli vélarinnar á veg Flightradar þar sem sést að henni er snúið við og beint til Íslands. 

Uppfært kukkan 8:23: 

Vélin lenti um klukkan korter yfir átta og verið er að yfirfara vélina. Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja var aðeins um reyk að ræða og voru tveir sjúkrabílar sendir á vettvang. 

Uppfært klukkan 9:17: 

Reykurinn kom úr gólhitara aftarlega í vélinni en upphaflega var talið að reykurinn hefði komið upp í flugstjórnarklefa vélarinnar. Farþegar hafa ekki verið fluttir frá borði og segir Guðjón að verið sé að taka ákvörðun um næstu skref. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert