Þingið komið í jólafrí

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/​Hari

Síðasta þingfundi Alþingis á þessu ári lauk í kvöld og er þingið þar með komið í jólaleyfi. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði af því tilefni að ánægjulegt væri að þinginu hefði tekist í meginatriðum að halda sig innan starfsáætlunar þess.

Sagði Steingrímur að þar hefði aðeins skeikað tveimur þingfundardögum og vísaði þar til gærdagsins og dagsins í dag en samkvæmt áætlun átti Alþingi að fara í jólaleyfi síðasta föstudag. Sagði hann þingið hafa verið starfssamt og mikill fjöldi mála verið lagður fram og ræddur.

Þannig hefðu 64 stjórnarfrumvörp verið lögð fram og 19 stjórnartillögur. Mikill fjöldi þingmannamála hefði einnig verið lagður fram eða 93 frumvörp og 99 tillögur. Þá hefðu nefndir lagt fram níu mál. 33 stjórnarfrumvörp hefðu orðið að lögum og 15 stjórnartillögur verið samþykktar. Tvö þingmannafrumvörp hefðu orðið að lögum og níu nefndarfrumvörp. Samþykktar þingmanna tillögur hefðu verið fimm.

„Þetta er mesti fjöldi mála sem afgreiddur hefur verið fyrir áramót frá 120. þingi, árið 1995,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Það er sérstakt ánægjuefni og er til fyrirmyndar hversu tímanlega Alþingi tókst að afgreiða fjárlög og var afgreiðsla þeirra að fullu í samræmi við starfsáætlun. Sama gildir um flest fjárlagatengd mál. Samþykkt fjárlaga 27. nóvember sl. var í reynd tímamótaviðburður því fjárlög komandi árs hafa ekki áður verið samþykkt svo snemma.“

Þakkaði hann sérstaklega formönnum þingflokkanna sérstaklega fyrir aðkomu þeirra að lokaafgreiðslu mála. Hins vegar gagnrýndi hann hversu mörg frumvörp frá ríkisstjórn hafi komið seint fram og öllu seinna en þingmálaskrá hafi gert ráð fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert