Gott veður milli umhleypinga

mbl.is/Sigurður Bogi

Útlit er fyrir gott jólaveður um allt land og í dag er ágætisveður víðast hvar þrátt fyrir að enn blási á Vestfjörðum. Milli jóla og nýárs er síðan aftur von á umhleypingum en að þessu sinni sunnanátt með hækkandi hita og rigningu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Eftir vindasama daga er búið að lægja víðast hvar á landinu og í dag verður austan og norðaustan 3-10 m/s. Áfram mun þó blása á Vestfjörðum en þar veðra 8-15 m/s fram á kvöld. Snjókoma eða él verður viðloðandi norðurströndina og Vestfirði en annars þurrt og bjart með köflum.

Jólaveðrið lítur vel út um allt land, en útlit er fyrir hæga breytilega átt og stöku él eða slydduél, einkum á Norðaustur- og Suðvesturlandi og útlitið því gott í flestum landshlutum fyrir þá sem óska sér hvítra jóla.

Milli jóla og nýárs er síðan aftur von á umhleypingum en að þessu sinni sunnanátt með hækkandi hita og rigningu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Víðast hvar vetrarfærð og mokstur víðast hvar hafinn. Enn er lokað um Þverárfjall, Siglufjarðarveg og Víkurskarð. Þungfært er á Svínvetningabraut. Vegurinn um Almenninga á Siglufjarðarveghi er lokaður vegna veðurs.

Búið er að opna veginn um Ljósavatnsskarð og eins um Öxnadalsheiði en þar er snjóþekja og skafrenningur. Vegurinn um Víkurskarð er lokaður vegna ófærðar. Þæfingur eða snjóþekja er á flestum leiðum á Norðausturlandi. Hófaskarð er ófært og lokað er um Hólasand. Verið er að moka yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Á Austurlandi er víða vetrarfærð en greiðfært er sunnan Reyðarfjarðar. Beðið er eftir upplýsingum af Vatnsskarði eystra. Klæðning hefur fokið af kafla af veginum við Lómagnúp og eru vegfarendur beðnir að fara varlega.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Austan og norðaustan 3-10 m/s, en 8-15 m/s á Vestfjörðum fram á kvöld. Snjókoma eða él við norðurströndina og á N-verðum Vestfjörðum, él austast, en annars þurrt.
Hæg breytileg átt á morgun, en norðvestan 5-10 m/s á Austfjörðum framan af degi. Él eða slydduél norðaustan- og suðvestanlands, en annars bjart með köflum.
Hiti við frostmark við ströndina, en frost 1 til 5 stig inn til landsins. Kólnar heldur er líður á morgundaginn.

Á þriðjudag (aðfangadagur jóla):
Hæg austlæg eða breytileg átt og bjartviðri víðast hvar, en él eða slydduél um landið norðaustanvert. Þykknar upp með él á suðvestan- og vestanlands um kvöldið. Sums staðar frostlaust við ströndina en annars frost 1 til 9 stig, kaldast inn til landsins.

Á miðvikudag (jóladagur):
Suðvestlæg átt, 5-10 m/s. Skýjað um landið vestanvert og stöku él framan af degi, en annars bjartviðri. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag (annar í jólum):
Suðlæg átt, 3-8 m/s. Skýjað og þurrt að mestu, en stöku él eða slydduél með suður- og vesturströndinni. Hiti um frostmark syðst en annars frost 1 til 9 stig.

Á föstudag:
Gengur í allhvassa suðaustanátt með rigningu en lengst af úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 2 til 7 stig, en vægt frost nyrst.

Á laugardag:
Suðlæg átt og rigning um landið sunnanvert, en yfirleitt þurrt fyrir norðan og austan. Milt í veðri.

Á sunnudag:
Útlit fyrir suðaustan hvassviðri með rigningu um allt land og hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert