Málið rannsakað sem hatursglæpur

Lögreglan á ferðinni í Reykjavík.
Lögreglan á ferðinni í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erlendur karlmaður á þrítugsaldri varð fyrir líkamsárás tveggja manna í miðbæ Reykjavíkur um fimmleytið í nótt. Talið að einhverskonar málmáhald hafi verið notað við árásina.

Maðurinn hlaut áverka í andliti og var nokkuð vankaður eftir. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl. Málið er rannsakað sem hugsanlegur hatursglæpur, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um níuleytið í morgun var tilkynnt um þjófnað á bifreið í hverfi 108. Um er að ræða Toyota Corolla ljósgráa að lit, árgerð 2005. Skráningarmerki TP-431.

Öryggisvörður í verslun óskaði eftir aðstoð lögreglu í hádeginu vegna búðarhnupls. Sakborningur var látinn laus að lokinni skýrslutöku á vettvangi. Hann viðurkenndi verknaðinn og sagði að tilgangurinn hefði verið að fjármagna fíkniefnaneyslu sína.

Upp úr klukkan hálfsjö í morgun var tilkynnt um mjög ölvaðan mann sem gekk á miðri akrein Vesturlandsvegar á Kjalarnesi. Honum var ekið heim til sín.

Ökumaður var handtekinn í Árbænum um níuleytið í morgun grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur. Ökumaðurinn neitaði að veita atbeina sinn við rannsókn málsins og var því sviptur ökurétti. Hann var látinn laus að lokinni sýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert