Var hræðileg í fótbolta

Sandra Björg Helgadóttir hefur þróað líkamsræktarprógrammið Absolute Training þar sem …
Sandra Björg Helgadóttir hefur þróað líkamsræktarprógrammið Absolute Training þar sem einnig er lögð áhersla á andlegu hliðina. Ljósmynd/Helgi Ómarsson

Sandra Björg Helgadóttir er sannarlega jákvæð og orkumikil kona sem veit hvað hún vill. Hún féllst á að hitta blaðamann í vikunni og segja frá sínum hugðarefnum; líkamlegri og andlegri heilsu. Sandra er með BS-próf í iðnaðarverkfræði og hyggur á MBA-nám í haust en þessa dagana þjálfar hún fólk, dansar og heldur námskeið og fyrirlestra.

Neyðarlegt á hliðarlínunni

Sandra segist hafa stundað hreyfingu allt sitt líf. „Mamma og pabbi voru dugleg að láta okkur systkinin prófa allt. Mamma gæti örugglega sagt þér hversu vandræðalegt það var að standa á hliðarlínunni og horfa á mig spila fótbolta. Ég var hræðileg í fótbolta,“ segir hún og brosir.

„Ég er mjög léleg í svona átökum, eins og átökum um boltann. Ég lét andstæðinginn gjarnan bara hafa hann,“ segir hún hlæjandi.

„Ég dáist að foreldrum mínum fyrir að hafa látið mig prófa mig áfram endalaust en það var ekki fyrr en ég fór í fimleika og dans að ég fann mína hillu. Ég bjó sem barn í Danmörku og fór þar níu ára gömul í fimleika. Þegar ég kom heim ellefu ára var það dansinn sem heillaði og ég fann mig vel hjá Stellu Rósinkranz og hef elt hana síðan ég var unglingur. Hún er einn flottasti dansari sem við eigum,“ segir hún.

„Dansinn hefur haldið mér á hreyfingu en ég hef líka verið í herþjálfun, crossfit og svo hef ég kennt spinning lengi. Ég féll mest fyrir spinning, fyrir utan dansinn.“

Hvað er svona gaman við það að sitja á hjóli inni í sal?

„Fyrir mér er það tónlistin og takturinn. Ég er alin upp við mikla tónlist. En ég man að þegar ég fór í fyrsta spinningtímann minn hugsaði ég að ég færi aldrei aftur. Ég held að flestir upplifi það. Maður þarf að komast yfir það tímabil að hata spinning, því fyrst hatar maður það en fær svo fíknina,“ segir hún og hlær.

Sandra er í fínu formi enda á hreyfingin hug hennar …
Sandra er í fínu formi enda á hreyfingin hug hennar allan. Ljósmynd/Helgi Ómarsson

Andleg og líkamleg heilsa

Góð líkamleg heilsa er gulli betri en Sandra vildi finna leið til að geta unnið með líkamlega og andlega heilsu samtímis. Hún fann því upp á prógrammi sem hún kallar absolute training. „Það er þjálfun í líkamlegri og andlegri heilsu og ég kenni það í World Class í Smáralind en það eru einnig tímar víðar á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og Höfn. Þetta eru fjögurra vikna námskeið, þrisvar í viku í sextíu mínútur. Það sem er öðruvísi við þessa tíma er að við tökum fyrsta kortérið í andlegu heilsuna. Þá vinnum við að markmiðasetningu og hver og einn sest niður með blað og penna og svarar spurningum eða vinnur í markmiðum sínum. Þetta er í raun eins og hóp-einkaþjálfun því það eru aldrei fleiri en tuttugu í hóp og oft bara tíu til fimmtán. Þetta er opið fyrir bæði kynin en miklu fleiri konur mæta en karlar,“ segir hún.

Að bæta við þekkinguna

Nú ert þú greinilega markmiðadrifin manneskja. Hver eru markmiðin fyrir 2020?

„Þau eru nokkur, meðal annars að sinna Absolute Training betur. Og af því ég fann í fyrra hvernig streitan fór að segja til sín ákvað ég að setja andlega heilsu í forgang. Ekki taka of mörg verkefni að mér. Ég ætla til Balí núna í febrúar og taka jógakennaranám en það hefur lengi verið markmið hjá mér. Það tekur þrjár vikur. Ég hef ekki verið nógu dugleg að fara sjálf á ný námskeið af því það hefur verið svo mikið að gera en það er eitt af því sem ég ætla að gera á árinu; bæta við mig þekkingu í þjálfun. Svo verð ég þrítug í sumar og Hilmar líka og okkur langar jafnvel að keppa í Ironman eða einhverju álíka á árinu. Það markmið er í vinnslu,“ segir Sandra.
„Draumurinn er svo að opna einhvers staðar Absolute Training erlendis. Þá myndum við kenna erlendum þjálfurum sem gætu þá kennt prógrammið í sínum heimalöndum. Ég stefni líka á að fara á hugleiðslunámskeið. Og ef ég kemst inn í MBA-námið flyt ég út til LA í haust,“ segir þessi orkumikla unga kona að lokum.
 

Sandra og kærasti hennar Hilmar Arnarson hafa bæði mikinn áhuga …
Sandra og kærasti hennar Hilmar Arnarson hafa bæði mikinn áhuga á crossfit en hann hefur bæði kennt og keppt í faginu. Ljósmynd/Aðsend


Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert