Þarf barnið þitt lyfjabrunn?

Þórunn Eva Guðbjargar Thapa gefur út fræðslubók fyrir börn sem …
Þórunn Eva Guðbjargar Thapa gefur út fræðslubók fyrir börn sem þurfa lyfjabrunn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég vildi að ég hefði haft svona leiðbeiningar þegar ég þurfti að útskýra fyrir syni mínum að hann þyrfti lyfjabrunn,“ segir Þórunn Eva Guðbjargar Thapa. Hún hefur skrifað bókina Mía fær lyfjabrunn sem er fræðslubók fyrir börn og fjölskyldur þeirra. 

Þórunn á sjálf tvo syni, 9 og 15 ára, sem báðir þurfa reglulega á lyfjagjöf á Landspítalanum að halda því þeir eru með meðfæddan galla í ónæmiskerfinu. Sá eldri er nú kominn með lyfjabrunn sem hefur einfaldað líf hans til muna. Yngri sonur hennar er ekki kominn með einn slíkan því lyfjagjafir hans ganga vel. Þórunn tekur fram að ef það fer að halla undan fæti hjá honum ætlar hún ekki að hugsa sig tvisvar um að óska eftir aðgerð fyrir þann yngri.     

„Það var mikill léttir þegar hann fékk hann. Andlega heilsan hans var alveg búin og þar af leiðandi líka okkar allra í fjölskyldunni. Þetta var orðið mjög erfitt ástand. Hann var ekki sáttur við að þurfa að fara og við þurftum hreinlega stundum að liggja ofan á honum á meðan æðaleggurinn var settur upp, stundum virkaði hann ekki og jafnvel gaf sig í miðri lyfjagjöf,“ rifjar Þórunn upp.

Þórunn safnar fyrir útgáfu bókarinnar því hún á að vera ókeypis og aðgengileg fyrir öll börn sem þurfa lyfjabrunn og fjölskyldur þeirra. Bergrún Íris Sævarsdóttir rithöfundur myndskreytir bókina. „Mér fannst enginn annar koma til greina en hún,“ segir Þórunn. Þess má geta að Bergrún Íris er handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár fyrir barnabók sína Langelstur að eilífu. 

Foreldrar barna sem ýmist eru með eða þurfa á lyfjabrunn að halda hafa sett sig í samband við Þórunni og eru spenntir að sjá verkið. Stefnt er að því að bókin komi út á næstu mánuðum. 

Þórunn segir að það sé ekki verið auðvelt að svara öllum þeim spurningum sem vöknuðu hjá syni hennar varðandi lyfjabrunninn eins og t.d. hvað gerðist ef hann fengi högg á hann og hann myndi skemmast o.s.frv. „Börnin trúa manni og því þarf maður að vanda það sem maður segir við þau,“ segir Þórunn. 

Hér er hægt að sjá nánar um verkefnið. 

Hægt er að styrkja verkefnið með því að leggja inn á eftirfarandi reikning:1161-15-203040 kt:591007-1650.

Þórunn er innilega þakklát fyrir alla styrkina sem hafa þegar borist.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka