„Flugvallayfirvöld ráða ekkert við þetta ástand“

Ólafur segir ljóst að flugvallaryfirvöld ráði ekkert við ástandið.
Ólafur segir ljóst að flugvallaryfirvöld ráði ekkert við ástandið. Ljósmynd/Aðsend

Hrakningar Íslendinga sem reyna nú að komast heim frá Tenerife virðast engan endi ætla að taka ef marka má frásögn Ólafs Stephensen, sem átti pantað flug heim með Norwegian sem var aflýst vegna sandstorms í gær.

Ólafur og fjölskylda hans voru svo heppin að fá að endurbóka sig með flugi Norwegian sem fara átti í loftið um klukkan átta í morgun. Þegar mbl.is sló á þráðinn til Ólafs síðdegis var hann hins vegar nýkominn um borð í rétta flugvél eftir rúma tíu klukkustunda bið á flugvellinum.

„Það er nokkuð augljóst að flugvallayfirvöld hér ráða ekkert við þetta ástand,“ segir Ólafur. Farþegar fengu skilaboð um það í morgun að flug þeirra væri á áætlun klukkan átta og voru flestir mættir á flugvöllinn klukkan sex. Það var hins vegar ekki fyrr en á þriðja tímanum sem farþegar á leið til Keflavíkur voru boðaðir út í vél, en þá tók við hátt í klukkustundarbið í að komast út í rútu sem flutti farþega í flugvél Norwegian.

Flutt út í vitlausa flugvél

Hrakningunum lauk þó ekki þar, því þegar flugvélin var næstum orðin full af farþegum kom í ljós að vél sú var á leið til Kaupmannahafnar en ekki Keflavíkur. „Þegar flugvélin er að verða full er það tilkynnt í hátalarakerfinu að þetta sé nú einhver misskilningur, þessi flugvél væri á leiðinni til Kaupmannahafnar,“ útskýrir Ólafur. „Og áhöfnin í vélinni vissi ekki einu sinni hvort það væri eitthvert flug á leið til Keflavíkur, en það var nú sem betur fer, og við vorum rekin úr flugvélinni og ferjuð í aðra vél sem okkur er sagt að sé á leið til Keflavíkur.“

Þegar mbl.is ræddi við Ólaf var verið að bíða eftir að allir farþegar væru komnir um borð, og vonaðist hann til þess að vélin færi fljótlega í loftið. Ólafur gerir ráð fyrir því að verða kominn heim til sín rúmlega einum og hálfum sólarhring á eftir áætlun, en hann telur sig heppinn þar sem margir sem hafi átt bókað í flugið í gær hafi enn ekki fengið úrlausn sinna mála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert