Handtóku mann á leið úr innbroti sem vísaði á þýfi

Maðurinn var handtekinn í nótt. Mynd úr safni.
Maðurinn var handtekinn í nótt. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í nótt tvo menn í tengslum við innbrotahrinu sem verið hefur á svæðinu. Höfðu lögreglumenn fyrst afskipti af manni á gangi sem þeir könnuðust við. Kom í ljós að bakpoki sem hann bar var ekki í eigu hans og viðurkenndi hann síðar að hafa verið á leið úr innbroti.

Vísaði maðurinn lögreglunni á hvar hann byggi og fannst þar mikið magn af veiðidóti, verkfærum og öðrum munum sem taldir eru þýfi.

Annar maður var í íbúðinni og er hann einnig talinn tengjast innbrotunum. Var hann einnig handtekinn. Lögreglan vinnur nú að skráningu munanna og verður haft samband við þá sem hafa kært þjófnað undanfarið og verða þeir fengnir til að bera kennsl á hlutina sem haldlagðir voru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert