Nýjar reglur um skipan sendiherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um utanríkisþjónustu hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Breytingarnar miða að því að koma á fastari skipan við val á sendiherrum til framtíðar með því að setja þak á fjölda sendiherra, afnema almenna undanþágu frá auglýsingaskyldu og lögfesta sérstakar hæfniskröfur.

Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnarráðsins í morgun. Þar er:

  • sett þak á fjölda sendiherra
  • auglýsingaskyldu komið á og sérstakar hæfniskröfur lögfestar
  • takmörk sett á sérstakar sendiherraskipanir
  • sveigjanleiki utanríkisþjónustunnar aukinn og tækifærum fyrir yngra fólk fjölgað

„Þessar breytingar tryggja nauðsynlegt jafnvægi milli festu og sveigjanleika innan utanríkisþjónustunnar, þar sem þekking og reynsla af alþjóðamálum myndar kjarnann án þess að við missum af tækifæri til að nýta jafnframt hæfileika og reynslu einstaklinga frá öðrum sviðum þjóðfélagsins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir jafnframt að horft sé til jafnréttissjónarmiða og muni þessi breyting auka möguleika kvenna til að fá framgang innan utanríkisþjónustunnar.

Í frumvarpinu er lagt til að fjöldi sendiherra taki mið af fjölda sendiskrifstofa hverju sinni en hingað til hafa engin viðmið gilt um fjölda sendiherra. Guðlaugur Þór hefur ekki skipað nýjan sendiherra frá því að hann tók við embætti utanríkisráðherra hinn 11. janúar 2017.

Leita þarf aftur til áranna 1961-1964 til að finna jafn langt tímabil þar sem enginn nýr sendiherra hefur verið skipaður. Þegar Guðlaugur Þór tók við embætti voru sendiherrar 40 talsins en þeir eru nú 36. Heildarfjöldi sendiskrifstofa er 25.

Þá mælir frumvarpið fyrir um skyldu til að auglýsa laus embætti sendiherra en embætti sendiherra eru nú almennt undanþegin auglýsingaskyldu. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að sérstakar hæfniskröfur gildi um sendiherra og er það breyting frá núgildandi fyrirkomulagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert