Fæddum börnum fjölgaði mikið á Landspítalanum í janúar á þessu ári frá sama mánuði í fyrra. Í janúar í ár fæddust á spítalanum 303 lifandi börn en þau voru 256 í janúar 2019. Fjölgunin er rúmlega 17 prósent.
Þetta kemur fram í riti spítalans Starfsemisupplýsingar sem er nýkomið út.
Fæðingar í janúar í ár voru 296, en þar af voru sjö tvíburafæðingar. Börn voru tekin með keisaraskurði í 58 skipti sem er um 32 prósent fjölgun frá janúar 2019 þegar skiptin voru 44.
Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2019 voru fæðingar á spítalanum 3.207. Árið áður voru þær 3.088 og árið 2017 2.987. Fæðingar árið 2015 voru 3.037.