„Þetta verður ekkert sældarlíf“

„Þetta verður ekkert sældarlíf,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahússins sem búið er að útbúa í húsnæði Fosshótels við Rauðarárstíg, um dvölina sem bíður fólks í aðstöðunni. Herbergin eru einföld hótelherbergi þar sem fólk þarf að dvelja stærstan hluta af 14 daga lágmarksdvöl.

Aðstaðan er að mestu hugsuð fyrir erlenda ríkisborgara sem þurfa að komast í sóttkví en einnig verður tekið á móti Íslendingum sem af einhverjum ástæðum geta ekki verið í sóttkví annars staðar. Allar tilvísanir í sóttkvína fara í gegnum starfsmenn á heilsugæslustöðvum eða Landspítalanum en opnað verður fyrir dvölina á morgun. Gylfi segir að enn sem komið er sé ekki búið að skrá neinn til dvalar á Rauðarárstígnum.

Aðstaða fyrir 160 manns og álma fyrir veika 

Sjálfboðaliðar Rauða krossins verða til staðar til að veita sálrænan stuðning en erfitt er að segja fyrir um hversu mikil notkunin verður. „Við erum með rúm fyrir 160 mannS og jafnvel fleiri,“ segir Gylfi en einhver herbergi eru stærri en venjuleg tveggja manna herbergi og verða þá nýtt til að hýsa fjölskyldur. Ef einhver veikist af COVID-19-sjúkdómnum sem kórónuveiran getur valdið hefur verið ákveðið að þeir muni dvelja á fjórðu hæð hótelsins og megi ekki yfirgefa herbergi sín. 

Í myndskeiðinu er aðstaðan skoðuð og rætt við Gylfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert