Minnst 35 smit á einni viku

Nýr sóttvarnagámur hefur verið settur upp við Landspítalann.
Nýr sóttvarnagámur hefur verið settur upp við Landspítalann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níu ný kórónuveirusmit greindust hér í gær. Þar með voru smitaðir orðnir 35 talsins. Fólkið sem hefur greinst með smit er allt í einangrun. Fyrsta tilfellið hefur verið greint á Suðurlandi. Sá smitaði er ásamt fjórum öðrum í heimaeinangrun í sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu.

Allir sem greinst höfðu í gær höfðu verið á Norður-Ítalíu eða í Austurríki og var ráðlagt að fara í sóttkví við heimkomu. Í gærkvöld var beðið niðurstaðna úr rannsókn á fleiri sýnum.

Greining á tölum frá WHO og kínverskum vísindamönnum bendir til að karlar séu líklegri til að deyja af völdum kórónuveiru en konur.

Fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér fyrir viku. „Ég átti ekki von á því að viku seinna værum við komin með a.m.k. 35 smit,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Lögreglan hefur fengið þó nokkuð margar tilkynningar um að fólk sem á að vera í sóttkví hafi rofið hana. Víðir segir að þær ábendingar sem hafi verið skoðaðar hafi ekki reynst vera réttar.

Alls höfðu 1.773 skráð sig í gagnagrunn utanríkisráðuneytisins fyrir Íslendinga erlendis vegna veirunnar kl. 16.00 í gær. Gagnagrunnurinn er ætlaður Íslendingum sem óska eftir að vera upplýstir um ferðaráð vegna veirunnar meðan á dvöl þeirra erlendis stendur. Nánari upplýsingar og tengil við gagnagrunninn er að finna á heimasíðu ráðuneytisins.

Íslendingarnir tíu sem eru í sóttkví á Tenerife fara í veirupróf í dag. Verði sýnin neikvæð mega þeir fljúga heim á laugardag með beinu flugi. Þá vinnur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að undirbúningi móttöku flugvélar frá Veróna á Ítalíu á laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert