Danir skilgreina Ísland sem áhættusvæði

Smáskilaboðin sem utanríkisráðuneyti Danmerkur sendi út.
Smáskilaboðin sem utanríkisráðuneyti Danmerkur sendi út. Skjáskot/Katrine Gregersen Vedel

Dönum var í dag ráðlagt af danska utanríkisráðuneytinu að fara sérstaklega varlega ef leið þeirra liggur til Íslands. Er það vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hérlendis og segir í smáskilaboðum frá danska utanríkisráðuneytinu sem send voru út í dag að um sé að ræða aðgerðir til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar. 

Mikið hefur verið fjallað um fjölda smita á Íslandi í dönskum fjölmiðlum en á vef danska utanríkisráðuneytisins segir að ef fólk ferðist til Íslands ætti það að gæta sérstaklega að því að það smitist ekki af kórónuveiru. Fólk ætti því að fylgja ráðleggingum landlæknis og yfirvalda á Íslandi til hlítar ef það ferðast til Íslands. 

„Yfirvöld á Íslandi geta gripið til ráðstafana til að hefta útbreiðslu veirunnar og því gæti verið kannað hvort þú sýnir sjúkdómseinkenni. Ef þú ert með slík einkenni geta yfirvöld beitt fyrirbyggjandi aðgerðum eins og einangrun. Henni getur líka verið beitt þótt fólk sýni ekki sjúkdómseinkenni. Þú ættir alltaf að fylgja tilmælum yfirvalda,“ segir á vef danska utanríkisráðuneytisins. 

Mælst er til þess að Danir gæti sín sérstaklega vel …
Mælst er til þess að Danir gæti sín sérstaklega vel hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland sem gult áhættusvæði

Fólki er einnig bent á að lesa meira um ástandið á Íslandi í danska sendiráðinu áður en það leggur af stað til Íslands og að það muni mögulega þurfa að sæta sóttkví ef það hafi dvalið á Ítalíu einhvern tímann á síðustu tveimur vikum. 

Dönsk yfirvöld skilgreina Ísland sem gult áhættusvæði eins og staðan er núna, að sögn Maríu Mjallar Jónsdóttur, deildarstjóra hjá utanríkisráðuneytinu. Danir skilgreina þrjú stig áhættusvæða, gul, appelsínugul og rauð áhættusvæði, en nefna má að Noregur er skilgreindur sem gult áhættusvæði af Dönum og fjögur héruð á Norður-Ítalíu eru skilgreind sem rauð áhættusvæði en þar hefur verið mjög mikið um smit.

Katrine Gregersen Vedel, dönsk kona sem búsett er hérlendis, fékk umrædd smáskilaboð frá danska utanríkisráðuneytinu í dag. Hún segir að þau hafi ekki komið henni á óvart en eins og áður sagði hefur mikið verið fjallað um fjölda smita hérlendis í dönskum fjölmiðlum undanfarið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert