„Erum að tala um 20-25 milljarða á ári næstu 3 ár“

Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, segir að horft sé til þriðjungsaukningar á fjárfestingu hins opinbera úr ríkissjóði í auknar framkvæmdir á næstu þremur árum, en fyrr í dag kynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum útbreiðslu kórónuveirunnar.

Eitt af sjö atriðum í aðgerðaáætluninni sem kynnt var sneri að því að setja aukinn kraft í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.

Spurður út í þessi verkefni segir Sigurður að þar sé fyrst að nefna hafnarmannvirki. Nefnir hann framkvæmdir sem muni byggja undir framtíðartekjur í tengslum við fiskeldissvæði og þar horfi hann til Djúpavogs og Bíldudals. Þá séu áskoranir í Þorlákshöfn vegna flutninga þangað sem og áforma um viðbótarferju með farþega á næstu árum.

Í tengslum við flugsamgöngur nefnir Sigurður að ráðast þurfi í framkvæmdir vegna öryggissjónarmiða á Egilsstaðaflugvelli og þá sé horft til þess að opna frekari fluggáttir inn í landið með uppbyggingu á Akureyri. Segir hann slíkt vera tekjugrunn inn í framtíðina.

Þegar kemur að vegaframkvæmdum segir Sigurður að þar sé margt sem hægt sé að fara í, meðal annars brýr yfir Ölfusá og Hornafjarðarfljót. Það séu verkefni sem hægt sé að fara í strax, en hafi verið aftar í forgangsröðinni. Þá séu fleiri verkefni sem hægt sé að bjóða út á árinu, en önnur sem þurfi að fara í hönnunar- og skipulagsferli.

Spurður út í umfang þessa liðar segir Sigurður að um tugi milljarða sé að ræða.  „Erum að tala um 20-25 milljarða á ári næstu 3 ár fyrir utan það sem við erum að horfa á á þessu ári.“ Þetta sé þriðjungsaukning á fjárfestingu hins opinbera úr ríkissjóði í þessi verkefni á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert