„Það eru til nægar birgðir af mat í landinu“

Þessi mynd var tekin í einni af verslun Bónuss á …
Þessi mynd var tekin í einni af verslun Bónuss á höfuðborgarsvæðinu í dag, en það hefur verið nóg að gera. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru til nægar birgðir af mat í landinu.“ Þetta sagði Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, á fundi almannavarna um kórónuveiruna í dag. Sagði hann bæði nægt af innlendum og innfluttum mat hér í landinu og þá væru birgðir af lyfjum einnig óvenjumiklar.

Í dag og í gær hafa borist fréttir af því að íbúar hafi hamstrað mat og vörur í verslunum. Andrés var á fundinum til að ræða þetta og var hann mjög skýr á fundinum. Sagði hann alls ekki nauðsynlegt að hamstra mat til heimilisins eða annars. „Það hamstur sem matvöruverslunin hefur upplifað er algjörlega ástæðulaust,“ sagði hann og bætti við að þetta skapaði gífurlegt álag á verslunina sem væri óþarfi.

Hvatti Andrés heimilin til að haga kaupum sínum skynsamlega.

Samtök verslunar og þjónustu eru einnig hagsmunasamtök lyfjaverslana og sagði Andrés að birgðir af lyfjum væru óvenjumiklar, „af augljósum ástæðum.“ „Það er engin ástæða til að hamstra lyf.“

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu, á fundinum í …
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu, á fundinum í morgun. Hann var skýr þegar hann sagði nægar birgðir af mat og lyfjum í landinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrr í dag var tilkynnt um samkomubann og að ekki mættu fleiri en 100 vera á sama stað eða viðburði. Á það meðal annars við um fjölda viðskiptavina í verslunum. Andrés sagði að verslunarrekendur hefðu þegar hafið vinnu við að passa upp á þetta. „Það verður talið inn í búðir og út úr þeim,“ sagði hann og bætti við að tekið yrði tillit til fjölda starfsmanna við þetta. „Engin ástæða önnur en að þetta muni virka ágætlega,“ sagði Andrés.

Spurður út í áhrif ferðabanns Bandaríkjanna sagði Andrés að þau væru engin eða í versta falli hverfandi svo langt sem séð verði.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu, á fundinum í …
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu, á fundinum í morgun. Hann var skýr þegar hann sagði nægar birgðir af mat og lyfjum í landinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert