60% þurfa að smitast til að mynda hjarðónæmi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Árni Sæberg

Um 60% landsmanna þurfa að fá kórónuveiruna til að hjarðónæmi fáist og veiran muni ekki þrífast áfram og hafa áhrif á samfélagið. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í Silfrinu á RÚV í dag.

„Við höfum reynt að einangra einstaklinga mjög snemma og hægja þannig á dreifingunni innanlands því það er gott að hafa það í huga að við getum ekki komið í veg fyrir að veiran fari um samfélagið. Við viljum bara að hún sýki ekki veikustu einstaklingana sem fara hvað verst út úr sýkingunni,“ sagði Þórólfur. „Við erum að reyna að búa til ónæmi í samfélaginu á hægan og öruggan hátt.“ 

Þórólfur setur spurningarmerki við þá ákvörðun sumra nágrannalanda Íslands að loka landamærum sínum í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta kom fram í Silfrinu á RÚV í dag. Sagðist hann telja það of seint að ætla að grípa til þess þegar faraldurinn er byrjaður.

Landamæralokanir litast af pólitík

„Ef menn ætla að loka löndum þá þurfa þeir að hugsa hvert markmiðið er. Það er hægt að loka löndum og reyna að koma í veg fyrir að veiran komi alfarið til landsins. Ef menn ætla að gera það, þá þarf landið að vera lokað þar til veiran er farin úr heiminum. Það getur tekið eitt til tvö ár,“ sagði Þórólfur. Önnur leið væri að loka þeim til að hægja á útbreiðslunni og segir Þórólfur það raunhæfari leið en sem fyrr segir væri það fullseint í rassinn gripið.

Þórólfur segist eiga í góðu sambandi við starfssystkini sín á Norðurlöndum. „Nú ætla ég að passa mig að leggja ekki sérstakan dóm á það sem hinar Norðurlandaþjóðirnar gera. En sóttvarnalæknar hafa ekki lagt þessar bröttu aðgerðir til og þær litast dálítið af pólitík,“ segir Þórólfur og vísar til ákvörðunar danskra og norskra stjórnvalda um lokun landamæra. Ríma þessi orð við ummæli norrænna sérfræðinga. „Fólk er eðlilega hrætt við veiruna og vill að allt sem hægt er sé gert. Þá dettur fólki fyrst í hug að loka öllu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert