„Höfum nánast ekkert getað skimað“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir mikilvægt að leysa vandann …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir mikilvægt að leysa vandann sem tengist heimsskorti á sýnatökupinnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vegna þess að allur heimurinn er að leit af þessum pinnum og stór hluti af þeim er búinn til í Kína. En nú eru Bandaríkjamenn að reyna að byrja skima sjálfir og það er þúsund sinni stærri þjóð en okkar þannig ég reikna með því að það haldi áfram að vera erfitt að ná í pinna um tíma.“

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spurður um heimsskort á sýnatökupinnum og hvers vegna hafi reynst svona erfitt að framleiða nægilega mikið af þeim. Hann vonast til að fá eitthvað af pinnum í þessari viku en það hafi gengið býsna illa hingað til.

„Þetta er bara pinni“

Spurður um tæknina á bakvið sýnatökupinnanna, sérstaka eiginleika þeirra og hvort ekki sé hægt að nota aðra tegund á meðan framboðið sé af skornum skammti segir hann þetta bara vera einfalda pinna en útskýrir svo vandamálið nánar.

„Þetta er ofboðslega einfalt. Við erum með alveg gífurlega flókin tæki til að gera þessi próf en pinninn er það einfaldasta af öllu – þetta er bara pinni.“

„En hann er með þann sveigjanleika að það er hægt að fara upp í gegnum nasirnar og gegnum nefholið og það sem menn óttast við að nota „impróviseraða“ pinna er að við fáum falska neikvæða niðurstöðu oftar en ella og fegnjum þar af leiðandi misvísandi upplýsingar,“ útskýrir hann og heldur áfram:

„Misvísandi niðurstöður eru verri heldur en engar. En við erum svo sannarlega að leita leiða til þess að búa þetta til sjálfir eða fá aðstoð hjá fyrirtækjum eins og Össuri eða öðrum.“

Segir hann ástandið erfitt enda gerist allt mjög hratt og tíminn sé lítill. Það verði þó að leysa þetta vandamál sem fyrst enda eigi Landspítalinn ekki nema um 2.000 sýnatökupinna eftir.

Faraldurinn gerir skepnur úr sumu fólki

Eru einhverjar verklagsreglur í svona neyðarástandi um að öll ríki séu jöfn varðandi það hverjir geta fengið sýnatökupinna eða geta stærstu og sterkustu ríkin hrifsað meirihlutann til sín?

„Þú sérð nú hvernig óargardýr þessi faraldur getur búið til úr fólki þegar Evrópusambandið bannaði að grímur og sloppar yrðu seldir út úr Evrópusambandsríkjum,“ segir hann og bætir við:

„Ég held að það sé mixtúra í þessu. Að hluta til virðist þessi faraldur gera fólk miklu samheldnara og betra en það eru frávík þar sem manni finnst þessi faraldur búa til skepnur úr fólki.“

Telur að færri en 1% þjóðarinnar sé smitað

„Við höfum nánast ekkert getað skimað síðan á miðvikudaginn í síðustu viku eða mjög lítið. Hlutfall smitaðra en ennþá 1% hjá okkur en ekki gleyma því að það jafngildir 3.600 einstaklingum,“ segir hann spurður um hlutfall greindra sýkinga í skimunum hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Hefur þú virkilega trú á því að það séu svona margir smitaðir á Íslandi eða heldur þú að það tengist því frekar að fólk með einkenni og fólk sem er hrætt um að vera smitað leiti frekar til ykkar?

„Ég hugsa að það dálítið af slíku [að fólk með einkenni leiti frekar til ÍE]. Ég held að hlutfall smitaðra sé minna en 1% en hversu mikið minna veit ég ekki. Vegna þess að ef við lítum á einkennin sem þetta fólk er með þá er það ekki frábrugðið því sem gengur og gerist almennt. Það er svolítið af kvefi og það vill svo til að þessi kórónuvírus verndar okkur ekki gegn kvefi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka