Útsynningur áfram en allt að 10 stiga hiti

Kort/Veðurstofa Íslands

Í dag er áframhaldandi útsynningur, þ.e. suðvestanátt með éljum sunnan og vestan til en bjartviðri á austanveðru landinu þar sem hnjúkaþeyr gæti sums staðar hækkað lofthita allnokkuð og má jafnvel búast við 5-10 stiga hita á Austfjörðum ef allt gengur eftir.

„Á morgun lægir á vestanverðu landinu og dregur úr ofankomunni en þá snýst í norðvestanátt austan til, og gæti verið allhvasst suðaustanlands fram eftir degi. Annað kvöld tekur hæð suður í höfum að miklu leyti stjórnina á veðrinu og lægir um allt land.

Það er útlit fyrir heldur mildara loft yfir landinu á laugardag og sunnudag, en kólnar svo aftur eftir helgi, jafnvel með norðan hríð norðan til á aðfaranótt miðvikudags, þó er ekkert endanlegt í þeim efnum,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurvefur mbl.is

Hálka er á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina og það er hálka eða snjóþekja á flestum vegum á Suðvesturlandi. Á Vesturlandi er víðast hvar snjóþekja eða hálka. Þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði og Vatnaleið en Fróðárheiði er ófær. Á Vestfjörðum er snjór á láglendi og erfiðari færð á fjallvegum. Verið að hreinsa, segir á vef Vegagerðarinnar.

Óvenjumikill snjór

Óvenju mikill snjór er nú til fjalla víða um land með mikilli lagskiptingu og geta leynst veikleikar í honum. Það blotnaði víða í snjónum langt upp eftir hlíðum um helgina og vot snjóflóð féllu, bæði myndarleg flekahlaup og lausasnjóflóð. Víða hefur snjóað aftur ofaná blauta snjóinn og líklegt að veik lög geti myndast. Á Vestfjörðum snjóaði mikið í hægri A-átt á mán-þri og getur snjóflóðahætta aukist hratt þar þegar tekur að hvessa í dag eins og spáir því vindflekar geta orðið mjög óstöðugir fyrst um sinn samkvæmt upplýsingum sem koma fram á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðvestan 8-15 m/s en hvassara á fjallvegum. Él en bjartviðri á Austurlandi. Lægir smám saman á morgun, fyrst vestan til en norðvestan 10-18 austantil fram eftir degi og stöku él NA-lands. Hiti víða 0 til 5 stig að deginum annars 2 til 8 stiga frost.

Á föstudag:

Vestlæg átt, 8-15 m/s en lægir þegar líður á daginn. Allvíða dálítil él en úrkomulítið eftir hádegi. Frost 0 til 5 stig, en um og yfir frostmarki við S-ströndina.

Á laugardag:
Vestan 5-13 og þykknar smám saman upp og dálítil súld eða rigning vestan til annars þurrt að kalla. Hlýnar í veðri og hiti víða yfir frostmarki um kvöldið.

Á sunnudag:
Vestan 8-15 og skýjað með köflum en úrkomulítið. Hiti 2 til 7 stig, hlýjast A-lands.

Á mánudag:
Stíf vestanátt með rigningu, en þurrt að kalla A-lands. Áfram milt.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hægari vestlæga átt og ört kólnandi veður á norðanverðu landinu en dálitl vætu og mildu veðri sunnan og suðvestan til en líkur á norðan hríð norðan til um kvöldið.

Á miðvikudag:
Líkur á norðanátt, stöku éljum norðan til og talsverðu frosti.

mbl.is