Þrír í haldi vegna árásar

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír menn eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna líkamsárásar í Kópavogi seint í gærkvöldi. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á bráðadeild Landspítalans með sjúkrabifreið og segir í dagbók lögreglunnar að ekki sé vitað um ástand hans. 

Tilkynnt var um líkamsárás í Kópavoginum klukkan 23:22 til Neyðarlínunnar og voru þrír menn handteknir á vettvangi og vistaðir í fangageymslum lögreglunnar.

Um svipað leyti var tilkynnt til lögreglu um að maður sé í haldi í verslun í miðbænum eftir að hann hafði verið stöðvaður vegna gruns um þjófnað. Maðurinn á að hafa ógnað starfsfólki með eggvopni.  Maðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Um tvö í nótt var tilkynnt um innbrot og eignaspjöll í skóla í Breiðholti (hverfi 109) en þrjár rúður í skólanum höfðu verið brotnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert