Aðgerðastjórn virkjuð og töluvert foktjón

Aðgerðarstjórn lögreglunnar á Norðurlandi eystra var virkjuð í gærkvöldi vegna …
Aðgerðarstjórn lögreglunnar á Norðurlandi eystra var virkjuð í gærkvöldi vegna storms sem gekk yfir svæðið. Töluvert var um foktjón en engin slys urðu á fólki. mbl.is/Hari

Aðgerðarstjórn lögreglunnar á Norðurlandi eystra var virkjuð í gærkvöldi vegna storms sem gekk yfir svæðið. Töluvert var um foktjón að sögn Jóns Kristins Valdimarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri. 

„Það var talsvert um fokverkefni, trampólín, grindverk og þess háttar,“ segir Jón Kristinn í samtali við mbl.is. Engin slys urðu á fólki og lauk aðgerðastjórn störfum skömmu eftir miðnætti. Flest útköll voru á Akureyri en björgunarsveitir sinntu einnig útköllum á Dalvík og í Svarfaðardal. 

Björgunarsveitir höfðu einnig í nægu að snúast á Austurlandi en að minnsta kosti sjö bifreiðar sátu fastar á Fjarðarheiði seint í gærkvöld.

Allt að 16 stiga hiti í dag

Stormurinn hefur nú gengið niður en spáð er suðvestanátt, 13-20 metrum á sekúndu, hvassast í vindstrengjum norðantil á landinu, en hægari vindur suðvestanlands. Sums staðar má gera ráð fyrir hvössum vindstrengjum við fjöll fram yfir hádegi, einkum norðan- og suðaustanlands, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings. 

Þá verður að mestu skýjað vestantil á landinu en léttir til með deginum og lengst af bjartviðri um austanvert landið. Hiti verður á bilinu 6 til 16 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á morgun verður fremur hæg vesanátt og dálítil væta, en áfram þurrt og bjart um austanvert landið. Hiti 6 til 14 stig á morgun, hlýjast syðst.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert