Óvíst hve margir megi vera í lauginni

Sundlaugar landsins hafa verið lokaðar frá 16. mars.
Sundlaugar landsins hafa verið lokaðar frá 16. mars. mbl.is/Hallur Már

Sundlaugar geta opnað á ný mánudaginn 18. maí en ljóst að sú opnun verður háð ákveðnum fjöldaskilyrðum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að enn eigi eftir að koma í ljóst hvernig þessum fjöldatakmörkunum verði háttað.

„Við erum að miða við 50 manns eins og staðan er núna en hver endanleg útkoman verður er ekki gott að segja. Sundlaugar eru með leyfi fyrir ákveðinn fjölda í sinni starfsemi og hvort miðað verði við 50 eða við hlutfall af leyfðum heildarfjölda í lauginni á eftir að koma í ljós,“ segir Þórólfur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Hann mun senda tillögur til heilbrigðisráðherra á næstunni þar sem hann leggur til útfærslur um þessi efni. Komið hefur fram að hugsanlega verður leyfður samkomufjöldi útvíkkaður í 100 manns 25. maí. Hann er sem stendur 50 og verður það einnig fyrstu vikuna sem sundlaugarnar verða opnar. 

Mikil smithætta á börum

Einnig er enn óvíst um opnun bara og skemmtistaða, en sem stendur mega aðeins veitingahús vera með opið og það aðeins til ellefu á kvöldin.

„Það hefur verið mikið spurt um bari og veitingahús. Við vitum að það er mismunandi áhætta á smiti eftir mismunandi starfsemi. Ég held að barir, þar sem fólk hópast mikið saman og er að drekka mikið, þar er smithættan miklu meiri en á öðrum stöðum og um það eru dæmi erlendis frá sérstaklega. Við þurfum að hafa það í huga en nákvæmlega hvernig útfærslan verður á þessu 25. maí er ekki komið alveg í ljós,“ segir Þórólfur.

Allt sem hefur verið lokað vegna samkomutakmarkana segir Þórólfur að sé „inni í myndinni“ þegar kemur að opnunum 25. maí en á meðan auglýsingin liggur ekki fyrir sé ótímabært að fara út í hvað sé líklegra en hitt. Þórólfur hefur talað um að líkamsræktarstöðvar verði inni í pakkanum, en staðfestir það ekki.

Um líkamsræktarstöðvar, bari og sundlaugar mun gilda að opnanir verða háðar takmörkunum. „Við erum ekki að tala um að opna allt bara. Við erum að tala um að aflétta þessu í hægum skrefum, þannig að það þurfa allir að búast við að það verði einhverjar takmarkanir áfram í gildi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert