Eldur í sumarhúsi í Úthlíð

Brunavarnir Árnessýslu minna á að sinubrenna er bönnuð.
Brunavarnir Árnessýslu minna á að sinubrenna er bönnuð. mbl.is/Hjörtur

Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar til vegna bruna í sumarhúsi í Úthlíð á laugardag. Íbúar í næsta bústað gerðu viðvart um eldinn og var hann slökktur af nærstöddum með slökkvitæki, að því er fram kemur á vef lögreglunnar. Svo virðist sem kviknað hafi í út frá gömlu rafmagnsljósi.

Fyrr um daginn sinntu slökkviliðsmenn á svæðinu útkalli þar sem eldur kom upp í ruslagámi við Dalbraut á Laugarvatni. Gámurinn var alelda þegar komið var á staðinn en þegar slökkvistarfi lauk mátti sjá leifar af einnota grilli meðal þess sem enn var óbrunnið.

Í síðustu viku höfðu Brunavarnir Árnessýslu einnig afskipti af unglingum sem voru að kveikja „varðeld“ við Vallaskóla. Þeim var gert að slökkva eldinn og í framhaldinu rætt við foreldra þeirra ásamt því að barnavernd var gert viðvart um afskiptin.

Þá logaði sinueldur skammt frá Laugalandi í Holtum í gær. Slökkvilið var kallað á vettvang og eldurinn slökktur. Nóttina áður hafði slökkvilið í Vík verið kallað út vegna gróðurelds skammt frá Stóru-Heiði. Vegna þessa vilja Brunavarnir Árnessýslu minna á að sinubrenna er bönnuð, ekki síst þar sem mófuglar eru flestir búnir að verpa og því er hætta á að ungviðið brenni ef kveikt er í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert