Ferðafélagar konunnar uppgefnir

Samferðamennirnir höfðu hlúð að konunni á meðan beðið var eftir …
Samferðamennirnir höfðu hlúð að konunni á meðan beðið var eftir aðstoð björgunarsveita og þyrlu og voru uppgefnir. Ljósmynd/Landsbjörg

Samferðamenn konu sem slasaðist á Hvannadalshnjúk í kvöld óskuðu eftir aðstoð við að komast niður af jöklinum eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar hafði sótt konuna um klukkan átta í kvöld. Samferðamennirnir höfðu hlúð að henni á meðan beðið var eftir aðstoð björgunarsveita og þyrlu og voru uppgefnir, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg. 

Björgunarsveitarmenn sem voru á leið á vettvang komu að hópnum klukkan hálfníu og vinna nú að því að flytja hópinn yfir jökulinn á vélsleðum og jeppum. Nú er hópurinn á leiðinni yfir jökulbreiðuna í fylgd björgunarsveitafólks og ætti að komast niður af jöklinum í kringum miðnætti.

Á sama tíma og björgunarsveitarfólk var að aðstoða hópinn yfir jökulinn voru björgunarsveitir í Reykjavík kallaðar út til aðstoðar við sjúkraflutningamenn á vegum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins vegna slasaðs manns í norðanverðu Úlfarsfelli sem flytja þurfti niður brattar hlíðarnar. Því verkefni lauk rétt fyrir ellefu.

Björgunarsveitir í Reykjavík voru kallaðar út til aðstoðar við sjúkraflutningamenn …
Björgunarsveitir í Reykjavík voru kallaðar út til aðstoðar við sjúkraflutningamenn á vegum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins vegna slasaðs manns í norðanverðu Úlfarsfelli í kvöld. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is