Rannsókn á þyrluslysi Ólafs Ólafssonar lokið

Þyrla Ólafs Ólafssonar eftir að hún brotlenti.
Þyrla Ólafs Ólafssonar eftir að hún brotlenti. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur líklegt að flugmaður þyrlu Ólafs Ólafssonar athafnamanns hafi ekki verið nægilega ákveðinn við stjórn þyrlunnar ásamt því að vanmeta veðurskilyrði með þeim afleiðingum að hann hafði ekki fulla stjórn á stéli þyrlunnar þegar hún hrapaði á Hengilssvæðinu 22. maí 2016. 

Rannsóknarnefndin hefur nú skilað lokaskýrslu vegna slyssins. 

Fimm voru um borð þegar þyrlan hrapaði, Ólafur, flugmaður þyrlunnar og þrír viðskiptafélagar Ólafs. Töluverð meiðsl urðu á fólki, en slysið vakti mikla athygli, meðal annars vegna þess að Ólafur afplánaði á þessum tíma fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins. 

Í skýrslunni beinir rannsóknarnefndin því til flugmanna að gæta sérstaklega að sér þegar þeir fljúga mismundandi tegundum loftfara. Þá eru flugmenn minntir á mikilvægi þess að afla alltaf upplýsinga um veðurskilyrði og reikna út þyngd flugfars. 

Þá segir að þar sem þyrlan hafi verið nálægt jörðu reyndist ekki unnt að ná fullri stjórn á stéli hennar þegar hún byrjaði að snúast með þeim afleiðingum að hún skall í jörðina. Ekki er útilokað að áhrif vinds á stélþyril þyrlunnar hafi verið meðverkandi þáttur í slysinu. 

mbl.is