100 mál í gærkvöldi og í nótt

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti samtals hundrað málum frá klukkan fimm síðdegis í gær til fimm í morgun. Alls gistu fimm í fangaklefum eftir nóttina. Verkefni lögreglunnar voru ýmiss konar, en meðal annars var tilkynnt um eld í bifreið á bifreiðaverkstæði á sjötta tímanum í gær. Þá var maður handtekinn fyrir líkamsárás í heimahúsi í kringum miðnætti.

Nokkur mál komu upp vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs, meðal annars umferðaróhapp í Hafnarfirði á áttunda tímanum þar sem grunur er um að ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum vímuefna. Ekki urðu þó slys á fólki. Þá var kona handtekin um klukkan tvö í nótt fyrir að sparka í lögreglumann.

Skömmu fyrir miðnætti handtók lögreglan svo tvo menn í Mjóddinni sem höfðu ekki borgað fyrir leigubifreið, en í kjölfarið höfðu þeir einnig reynt að stela vörum í verslun í Mjóddinni.

mbl.is