Kveðjuhóf eftir síðasta upplýsingafundinn

Þríeykið verður á sínum stað á fundinum í dag. Áslaug …
Þríeykið verður á sínum stað á fundinum í dag. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra verða gestir. Ljósmynd/Lögreglan

Starfsfólk björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð ætlar að gera sér glaðan dag eftir upplýsingafund vegna kórónuveirufaraldursins í dag og kveðja hvert annað með formlegum hætti fyrst að búið er að opna á milli starfseininga í húsinu eftir að neyðarstigi almannavarna var aflýst á miðnætti. Upplýsingafundurinn í dag verður sá síðasti sem haldinn verður með reglubundnu sniði.

„Covid-teymið sem hefur starfað í Skógarhlíð allar þessar vikur er að leysast upp, fólk er farið aftur á sína vinnustaði víðs vegar um borgina þannig að þetta verður sá tímapunktur sem við komum saman aftur og kveðjum hvert annað,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is.

Kveðjuhófið fer fram í Skógarhlíð eftir að upplýsingafundi dagsins lýkur en hann er sá síðasti sem verður haldinn með reglubundnu sniði. Þó verður boðað til fleiri funda ef aðstæður breytast eða ef þurfa þykir.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra verða gestir á fundi dagsins.

Uppfært klukkan 13:33. Í upphaflegri frétt kom fram að starfsfólk embættis landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra ætluðu að gera sér glaðan dag að loknum upplýsingafundi almannavarna. Hið rétt er að allt starfsfólk björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð ætlar að koma saman að fundi loknum í dag.

Frá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Myndin er úr safni.
Frá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert