Skimi á siglingunni frá Færeyjum

Þá segir Víðir að snjöll hugmynd hafi komið frá fólkinu …
Þá segir Víðir að snjöll hugmynd hafi komið frá fólkinu „á gólfinu“ eins og hann orðaði það. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flugvél Landhelgisgæslunnar flýgur með hóp heilbrigðisstarfsfólk til Færeyja á mánudag, þar sem það mun fara um borð í Norrænu og sigla með henni til Íslands. Á leiðinni verður skimað fyrir kórónuveirunni á meðal farþega.

Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á upplýsingafundi vegna opnunar landamæra Íslands 15. júní.

Víðir sagði að mikil áhersla hafi verið lögð á komu ferðamanna í gegnum Keflavíkurflugvöll, en að ekki megi gleyma því að von sé á fjölda farþega með Norrænu í sumar. Þannig væri von á 200 farþegum næstkomandi þriðjudag, 600 í næstu ferð á eftir og 800 í þeirri þarnæstu.

Þegar sumaráætlun Norrænu fari í gang stoppi hún einungis í 2,5 klukkustund á Seyðisfirði, sem geri það ómögulegt að skima alla farþega um borð áður en þeir fái að fara inn í landið.

Þá segir Víðir að snjöll hugmynd hafi komið frá fólkinu „á gólfinu“ eins og hann orðaði það, sem hljóðaði þannig að hópur fólks yrði sendur til Færeyja og myndi sigla til landsins með Norrænu og skima farþegana á leiðinni til Íslands. Hugmyndin hafi þótt skrýtin, en þegar í ljós hafi komið að flugvél Landhelgisgæslunnar væri á ferðinni hefði verið ákveðið að láta á þetta reyna og verður það gert á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert