Bjarni Thor er bæjarlistamaður Garðabæjar

Athöfnin fór fram í Sveinatorgi á Garðartogi í gær.
Athöfnin fór fram í Sveinatorgi á Garðartogi í gær. Ljósmynd/Aðsend

Óperusöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson var kynntur sem bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2020 og Hallfríður Ólafsdóttir, rithöfundur og flautuleikari, hlaut heiðursviðurkenningu fyrir mikilvægt framlag til menningar og lista við athöfn sem haldin var í Sveinatungu á Garðartorgi í gær.

Bjarni Thor hóf söngnám 18 ára gamall en fór til Vínarborgar í framhaldsnám árið 1994 og vorið 1997 var hann ráðinn sem aðalbassasöngvari þjóðaróperunnar í Vín. Eftir nokkurra ára fastráðningu þar fór Bjarni víða um heim þar sem hann hefur sungið ýmis hlutverk í óperum sem lausráðinn söngvari.  Bjarni Thor hefur verið tíður gestur í Ríkisóperunni í Berlín en auk þess komið fram í mörgum af bestu óperuhúsum heims s.s. í Chicago, Róm, Veróna, París, Palermo og Lissabon, segir í tilkynningu.

Hann hlaut Grímuna fyrir hlutverk Osmin í ,,Brottnáminu úr kvennabúrinu“ hjá Íslensku óperunni árið 2006. Bjarni hefur að mestu sungið erlendis undanfarin ár, nú síðast í Parma á Ítalíu þar sem hann var við æfingar þegar kórónuveirufaraldurinn fór af stað.

Bjarni Thor tók lagið við athöfnina og Hallfríður, höfundur bókanna um Maxímús Músíkús, minnti á mikilvægi tónlistarskólanna á Íslandi sem gera flestum börnum kleift að læra á hljóðfæri.

Bjarni Thor Kristinsson er bæjarlistamaður Garðabæjar 2020.
Bjarni Thor Kristinsson er bæjarlistamaður Garðabæjar 2020. Ljósmynd/Aðsend
Hallfríður Ólafsdóttir hlaut heiðursviðurkenningu.
Hallfríður Ólafsdóttir hlaut heiðursviðurkenningu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert