Ákærður eftir mótmæli í dómsmálaráðuneytinu

Hópur mótmælenda kom saman í anddyri dómsmálaráðuneytisins í apríl 2019 …
Hópur mótmælenda kom saman í anddyri dómsmálaráðuneytisins í apríl 2019 til að berjast fyrir bættum aðbúnaði hælisleitenda. Ljósmynd/Eva Björk

Kári Orrason, 23 ára gamall baráttumaður fyrir réttindum flóttafólks, hefur verið ákærður fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu við mótmæli í dómsmálaráðuneytinu í apríl á síðasta ári. Kári var þar að mótmæla ásamt félögum sínum úr samtökunum No Borders en þeir kröfðust fundar með dómsmálaráðherra um aðbúnað flóttamanna í landinu.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun, en þar skrifar Kári einnig opið bréf til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann lýsir yfir vonbrigðum með lögreglustjórann, sem hann segist hafa talið víðsýna og góðhjartaða eftir að hafa talið sig sjá hana á samstöðumótmælum með Black Lives Matter-hreyfingunni í síðasta mánuði.

Mótmælin voru haldin 4. apríl í fyrra í húsnæði dómsmálaráðneytisins við Sölvhólsgötu og komu í kjölfar mótmæla hælisleitenda við Austurvöll þar sem krafist var, meðal annars, bætts aðbúnað fyrir hælisleitendur að Ásbrú.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu eftir að mótmælendur sem höfðu komið sér fyrir í anddyrinu neituðu að fara. Lögreglumenn sem komu á vettvang drógu suma mótmælendur út úr byggingunni eftir að þeir neituðu að hlýða fyrirmælum.

Hinir handteknu voru fyrst sakaðir um húsbrot en það mál var látið niður falla. Fimm voru í hópnum, en tveimur þeirra hefur nú verið birt ákæra, Kára og Borys Ejryszew. Verði þeir sakdelldir eiga þeir yfir höfði sér sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert