Hafa ekki og munu ekki segja skólum að loka

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grunn-, framhalds- og háskólar hefjast margir hverjir eftir um hálfan mánuð og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að hann muni ekki mælast til þess að skólarnir loki vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, það hafi hann aldrei gert og muni ekki gera.

„Við gefum línurnar fyrir skólana, svo er það þeirra að ákveða þetta,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

„Ég veit að þeir eru komnir með einhverjar leiðbeiningar til þess að vera innan þessara leiðbeininga og marka sem við höfum gefið upp. Ég vona sannarlega að fólk vandi til verka við að fylgja okkar leiðbeiningum og vel takist til.“

Skólarnir verði að vinna innan markanna

Þegar faraldurinn stóð sem hæst í vor lokuðu byggingar háskólanna og var skólaganga bæði grunn- og framhaldsskóla takmörkuð. Fjarkennsla var þá tekin upp víða.

 „Við höfum ekki gefið það út að skólar þurfi að loka. Við erum með ákveðnar fjöldatakmarkanir og skólarnir verða að treysta sér til að vinna innan þeirra marka,“ segir Þórólfur en eins og leikar standa mega ekki fleiri en 100 koma saman og þarf fólk að geta haldið tveggja metra fjarlægð, ellegar skal setja upp grímur.

„Ef þeir geta ekki takmarkað fjöldann sem kemur saman við 100 og haldið tveggja metra fjarlægð á milli fólks þá þurfa skólarnir að leita annarra leiða. Við erum ekki að segja fólki fyrir verkum nákvæmlega en við aðstoðum mjög marga með útfærsluna á þessu því margir eiga í svolitlum vandræðum með það.“

Á upplýsingafundi almannavarna sagði Þórólfur að líklega yrði gripið til svipaðrar nálgunar í skólamálum og var í vor. Þá benti hann á að enn benti allt til þess að börn væru miklu minna smitandi en fullorðnir.

Samráðsfundir með menntamálayfirvöldum eru á dagskrá í þessari viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka