Ófærð á syðri hluta hálendis

Mikið vatn er í ám á syðri hluta hálendis
Mikið vatn er í ám á syðri hluta hálendis

Miklir vatnavextir eru á syðri hluta hálendisins, og viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir Þórsmörk, Fjallabak syðra og við Laka. Þetta staðfestir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, í samtali við mbl.is. Krossá er ófær í Þórsmörk og mikið vatn er í öðrum ám á svæðinu.

Úrhelli hefur verið á svæðinu og mikið vatn er í ám. Ekki er vitað af skemmdum sem hafa orðið á vegum, en Ágúst segist hafa áhyggjur af ástandinu.

„Það er ennþá allt á sínum stað, en það gefur sig eitthvað á endanum,“ segir Ágúst.

Varasamt getur verið að keyra á svæðinu, svo ferðamenn eru beðnir að sýna aðgát.

Vegagerðin hefur gefið út viðvaranir fyrir Hellisá á Lakavegi (F206), Syðri-Ófæru í Álftavatnskrók (F233) og Krossá í Þórsmörk (F249).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert