Svíar sjá um bóluefnissölu til Íslands

Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar.
Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar. Skjáskot/SVT

Sænsk stjórnvöld munu hafa milligöngu um sölu á bóluefni til Íslands gegnum samstarfsverkefni Evrópusambandsins. Þetta kom fram í máli Lenu Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, á blaðamannafundi sænsku ríkisstjórnarinnar í dag.

Á fundinum tilkynnti Hallengren að Svíar tækju þátt í samstarfsverkefninu sem snýr að kaupum á 300 milljónum skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni frá sænsk-breska fyrirtækinu Astra Zeneca, að því gefnu að bóluefnið standist prófanir. .

„Í þessu bóluefnissamstarfi koma styrkleikar Evrópusamstarfsins glöggt í ljós,“ sagði Hallenberg. „Nú liggur fyrsti samningur fyrir og hefur ríkisstjórnin ákveðið að taka þátt í verkefninu,“ sagði ráðherrann og bætti við að bóluefnið væri nú í prófun.

Of snemmt að segja til um afhendingartíma

Auk Evrópusambandsríkjanna munu Ísland, Noregur og Sviss fá hluta skammtanna og munu Svíar hafa milligöngu um söluna til Íslands og Noregs. Skömmtunum verður dreift á milli ríkjanna, sem í búa tæpar 500 milljónir manna, en á fundinum kom fram að Svíar, sem eru um 10 milljónir, geti vænst þess að fá um 6 milljónir skammta. Það jafngildir um 210.000 skömmtum fyrir Ísland.

Niðurstöður klínískra rannsókna munu, að sögn Hallengren, leiða í ljós hvort fólk þarf einn eða tvo skammta af bóluefninu „Það er of snemmt að segja til um hvenær er hægt að afhenda bóluefnið en sérhvert land mun fá skammtana sína samtímis.“ Þá kom fram að einnig hefði verið samið um möguleikann á að kaupa 100 milljónir skammta til viðbótar.

Auk þessa verkefnis taka íslensk stjórnvöld einnig þátt í verkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem ber nafnið COVAX.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert