Átaks þörf til að stytta biðlistana

Dagur B. Eggertsson segir niðurskurð á velferðarsviði vera nú 0,5%, …
Dagur B. Eggertsson segir niðurskurð á velferðarsviði vera nú 0,5%, miðað við 1% fyrir faraldur. Árni Sæberg

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, spurði Dag B. Eggertsson borgarstjóra í fyrirspurnatíma í Ráðhúsinu í dag hvort hann hefði áhuga á að ráða bót á biðlistum eftir félagslegri þjónustu á vegum borgarinnar og hvernig hann hygðist taka á vandanum.  

„Biðlistar eftir þjónustu hafa í áraraðir verið allt of langir og nú horfir fram á skertar tekjur borgarinnar ásamt aukinni þörf fyrir aðstoð. Það er öllum augljóst að átaks er þörf til að koma í veg fyrir að biðlistar eftir þjónustu lengist til muna og stytta þá í eðlilegt horf,“ sagði hún. 

Standa þurfi með sveitarfélögunum

Svaraði borgarstjóri því að mikilvægt væri að sveitarfélögum yrðu sköpuð skilyrði til að fylgja sömu stefnu. Grundvallarspurningin væri hvernig sveitarfélög gætu hagað sínum rekstri í kjölfar efnahagsþrenginga vegna faraldursins.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. Eggert Jóhannesson

„Það er alveg ljóst að það þarf að standa með þeim, annars er hætt við því að sveitarfélög sem standa sterkast geti gert meira, til dæmis Reykjavíkurborg,“ sagði hann. 

Fór þá Kolbrún aftur upp í pontu og lagði áherslu á að vandinn væri ekki til kominn vegna faraldurs heldur uppsafnaðs vanda. 

„Staðan væri ekki alveg svona slæm í kjölfar þessa áfalls, ef þetta væri ekki uppsafnaður vandi. Þegar við horfum á tölurnar sjáum við að eftir húsnæði fyrir fatlaða bíða 150 manns, eftir félagslegri heimaþjónustu 80 manns, eftir liðveislu bíða 200 manns, eftir fagfólki í skóla, 200 börn eftir fullnaðarþjónustu.

Þetta skeði ekki á einni nóttu, hér er uppsafnaður vandi til margra ára og það hefði auðvitað verið dálítið annað að taka á móti þessu óvænta áfalli hefðum við ekki verið að safna upp slíkum vanda,“ sagði hún. 

Niðurskurður hafi verið minnkaður vegna faraldursins

Svaraði borgarstjóri því að niðurskurður á velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafi undanfarin ár verið 1% en sé núna 0,5%.

„Í tilefni ástandsins jukum við það ekki heldur lækkuðum það í 1%, svo það sé allt á hreinu. Þegar kemur að félagslegu húsnæði og húsnæði fyrir fatlað fólk þá er Reykjavíkurborg í miklu uppbyggingarátaki. Ég vil að við vinnum eins og nokkur kostur er á þessum biðlistum.“

Minnti hann þó á að betur myndi ganga ef aðrir tækju jafn kröftuglega á málunum og Reykjavíkurborg: „Ég held ég muni það rétt að þrjár af hverjum fjórum félagslegum íbúðum eru í Reykjavík og þeim hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka