Ernir hættir Eyjaflugi

Dornier-flugvél Ernis á flugvellinum í Eyjum.
Dornier-flugvél Ernis á flugvellinum í Eyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórnendur flugfélagsins Ernis hafa ákveðið að hætta flugi til Vestmannaeyja og síðasta ferðin þangað verður á föstudag, 4. september.

„Flug á þessari leið hefur ekki borið sig og því er í raun sjálfhætt,“ segir Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ernis, í samtali við mbl.is.

Ernir tók við flugi til Eyja í ágústbyrjun 2010, eða um líkt leyti og Landeyjahöfn, þangað sem Herjólfur siglir nú, var tekin í notkun.

„Þegar best lét voru farþegar okkar á þessari leið 18 til 20 þúsund á ári en hefur fækkað mikið síðan. Sérstaklega hefur það gerst núna í ástandinu sem kórónuveiran skapar,“ segir Hörður.

Hörður Guðmundsson framkvæmdastjóri Ernis.
Hörður Guðmundsson framkvæmdastjóri Ernis. mbl.is/Sigurður Bogi

Geta komið aftur inn í flugið

Í Eyjaflugi Ernis hafa verið jöfnum höndum Jetstream-skrúfuþotur, sem taka allt að 19 manns, og Dornier 328 sem tekur 32 farþega. Þegar best lét hélt félagið uppi daglegum ferðum til Eyja og fór þangað jafnvel þrisvar á dag. Að undanförnu hafa ferðirnar verið fimm á viku.

„Samlegðaráhrif af annarri starfsemi hafa gert okkur mögulegt að fljúga til Eyja. Við getum komið aftur inn í flug á þessari leið með skömmum fyrirvara ef aðstæður breytast, en þá þarf talsvert að koma til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert