Ísland í 9. sæti

Athygli vekur að Ísland fellur niður um þrjú sæti á …
Athygli vekur að Ísland fellur niður um þrjú sæti á milli ára. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland er í 9. sæti af 163 löndum, hvað varðar lífsgæði og styrk samfélagslegra innviða. Þetta sýnir árleg úttekt á vísitölu félagslegra framfara, sem birt er í dag.

Niðurstöður úttektarinnar gefa til kynna að Ísland sé í 9. sæti af 163 þjóðum, en vísitalan er gefin út af stofnuninni Social Progress Imperative og samanstendur af fimmtíu samræmdum vísum um félagslegar framfarir sem ná yfir tíu ára tímabil.

Athygli vekur að Ísland fellur niður um þrjú sæti á milli ára og um sjö sæti á tveimur árum, en landið skipaði 2. sæti listans árið 2018. Þegar horft er yfir 10 ára tímabil hefur Ísland þó bætt sig um 1,39 stig og er nú með 91,09 stig. Efst trónir Noregur með 92,73 stig.

Byggir á félags- og umhverfislegum þáttum

Í tilkynningu frá SPI segir að mælikvarðinn byggi einungis á félagslegum og umhverfislegum þáttum og engum hagrænum stærðum. Vísitalan byggi á þremur grunnstoðum; grunnþörfum einstaklingsins, undirstöðum velferðar og tækifærum einstaklingsins.

„Vísitalan er reiknuð árlega fyrir flest öll lönd heimsins og nær nú 2020 til um 99,85% íbúa heimsins. Þessi mælikvarði sem byggir á meira en 80.000 einingum gagna, gefur mynd af því hversu vel þjóðum heims hefur tekist til að tryggja íbúum sínum velferð og skapa þeim tækifæri til að bæta líf sitt,“ segir í tilkynningunni.

Ítarlegri upplýsingar má nálgast á vef Social Progress Imperative.

Haldinn er fundur klukkan 14 í dag um stöðu félagslegra framfara í heiminum. Á meðal þátttakenda eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands og Carlos Alvarado Quesada, forseti Kosta Ríka. Fundinum verður streymt hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert