75 ný innanlandssmit: tveir á sjúkrahúsi

Boðað hefur verið til upplýsingafundar almannavarna klukkan 14 í dag.
Boðað hefur verið til upplýsingafundar almannavarna klukkan 14 í dag. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Í gær greindust 75 innanlandssmit, 57 á sameiginlegri sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar, þrjú í annarri skimun Íslenskrar erfðagreiningar og 15 í sóttkvíar- og handahófsskimun. 49 þeirra sem greindust voru ekki í sóttkví. Eitt smit greindist við landamæraskimun. Nýjustu tölur hafa verið birtar á covid.is.

Kári Stefánsson staðfestir í samtali við mbl.is að 75 kórónuveirusmit hafi greinst hér á landi í gær. Hann segir jafnframt að ný bylgja sé hafin sem verði alvarlegri en önnur bylgja faraldursins sem hófst í lok sumars.

Kári segir jafnframt að hann telji að hægt verði að ná utan um þessa bylgju á einum til tveimur vikum ef ráðist verður í hertar aðgerðir innanlands. Hann tekur fram að enn eigi margt eftir að koma í ljós þegar líður á daginn.

„Þetta er mun nær því sem var í fyrstu bylgju en þeirri annarri,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. „Við munum leggjast yfir gögnin í dag og munum því fá skýrari mynd á stöðuna síðar í dag.“

Meirihluti smitaðra ungt fólk

Kári segir að búið sé að skima töluverðan fjölda fólks í slembiúrtaki og að allir sem skimaðir voru hafi verið neikvæðir. Þá segir hann að nú hafi 2.000 háskólanemar verið skimaðir í sérstakri skimun Íslenskrar erfðagreiningar og að 0,25% þeirra hafi verið smituð. Allt útlit sé fyrir að veiran sé í veldisvexti hér á landi.

Kári segir það hafa verið rétt að loka krám og skemmtistöðum yfir helgina.

„Það lítur út fyrir að þeir sem eru að smitast séu akkúrat sá aldurshópur sem sækir öldurhús borgarinnar hvað mest. Það var því rétt ákvörðun að loka slíkum stöðum yfir helgina.“

Skimunum fjölgað

Boðað hefur verið til upplýsingafundar almannavarna klukkan 14 í dag.

Þá liggja tveir á sjúkrahúsi með kórónuveiruna og fjölgaði því ekki frá í gær.

Eitt smit greindist við skimun á landamærum og er niðurstaðna mótefnamælingar beðið.

Samtals eru þá 765 í sóttkví en voru 793 í gær og 181 er í einangrun en voru 108 í gær.

Tekin voru 1.186 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær og 365 sýni á landamærunum eða í seinni landamæraskimun. Þá voru 1.250 sýni tekin í annarri skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu, 828 sýni voru tekin í sóttkvíar- og handahófsskimun.

mbl.is

Bloggað um fréttina