Víðir enn áhyggjufullur

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir að hann hafi enn áhyggjur af þróun kórónuveirunnar hér á landi. Nýgengi sé ennþá hátt og að sama hlutfall skimaðra, um 2,3%, greinist smitað og síðustu daga þegar smitfjöldinn var meiri. Í gær greindust 20 með kórónuveirusmit hér á landi. Fjórir eru á spítala, þar af einn í öndunarvél á gjörgæslu.

„Við erum áfram áhyggjufull vegna þess að það er ennþá svolítið sama hlutfall þeirra sem fara í skimun að greinast með smit,“ segir Víðir í samtali við mbl.is. Hann segir jafnframt að vanalega sé sýnataka minni um helgar en á virkum dögum.

„Það komast allir í sýnatöku sem vilja, fólk greinilega bara sækir minna í hana um helgar. Við höfum alveg getu til þess að skima fleiri um helgar.“

Aðgerðir virki mögulega betur en tilmæli

„Það er nú um 10 dagar síðan við hófum að beina þeim tilmælum til fólks að virða metersregluna, passa persónubundnu sóttvarnirnar, vinna að heiman ef svo er hægt og þess háttar og því miður höfum við séð takmarkaðan árangur af því. Við vorum að vonast til þess að nú værum við farin að sjá árangur af því að hafa brýnt þessa hluti fyrir fólki.

Í vor sáum við hins vegar árangur af því að grípa til mjög hertra aðgerða á um sjö dögum. Menn eru því eðilega að skoða alla kosti í þessum efnum.“

Gengur víða betur en hér

„Við sjáum að í löndum í kringum okkur þar sem gripið var til hertari aðgerða er mun minna nýgengi en hérna. Maður spyr sig því hvort það sé þörf á því að grípa til aðgerða svo betri árangur náist.“

Hann segist þó finna fyrir samvinnuvilja hjá þjóðinni. „Það var tekin sú ákvörðun að halda hér öllu eins mikið opnu og mögulegt væri. Við sjáum að veitingastaðir eru opnir, líkamsræktarstöðvar og sundlaugar eru opnar. Kórar og alls kyns klúbbar eru með starfsemi og svo framvegis.

Og fólk virðist alveg vera að virða þau tilmæli sem sett eru, til að mynda voru allir staðir lokaðir í gær sem áttu að vera lokaðir. Það er hins vegar kannski ekki nægur árangur að fást og þess vegna er verið að skoða alla möguleika.“

mbl.is