Segir tilslakanir innanlands skýra bylgju

Framhaldsskólar ættu að vera opnir og kennarar í viðkvæmum hópum …
Framhaldsskólar ættu að vera opnir og kennarar í viðkvæmum hópum að halda sig heima og kenna þaðan segir Jón Ívar Einarsson í grein í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Því miður var slakað á aðgerðum innanlands 7. september, smitstuðullinn rauk upp, og þetta olli því að þriðja bylgjan byrjaði viku seinna. Einstaklingsbundnar smitvarnir innanlands skipta nefnilega meira máli en aðgerðir á landamærum. Smit munu alltaf komast inn í landið og mikilvægasta leiðin til að hindra að þau breiðist hratt út er að hafa ekki „frjóan jarðveg“ innanlands,“ segir Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

„Á Íslandi hafa einungis 1-2% þjóðarinnar sýkst afCovid. Það er frábær árangur, en það þýðir líka að flestir eru útsettir fyrir sýkingu. Aðrar þjóðir hafa ekki staðið sig eins vel, t.d. mælast 16% íbúa Stokkhólms og 33% íbúa í New York með mótefni. Þetta er ekki nóg til að hjarðónæmi myndist en það takmarkar þó útbreiðsluCovid og íbúar þessara borga geta núna leyft sér meira frelsi innanlands en við og eru ekki eins líklegir til að fá nýjar smitbylgjur yfir sig,“ segir Jón Ívar í greininni.

Jón Ívar Einarsson.
Jón Ívar Einarsson.

Hann segir flesta hafa áttað sig á að það er tálsýn að halda að Ísland geti verið veirufrítt land eða að það sé hægt að lifa alveg eðlilegu lífi þar til faraldurinn er yfirstaðinn. Sóttkví á landamærum skrúfaði fyrir ferðamannastraum sem slökkti lífsneistann í ferðaþjónustu og tengdum greinum.

„Þannig hafa á undanförnum vikum verið gerð tvenn afdrifarík mistök í aðgerðum gegn Covid, þ.e.a.s. farið í mjög harðar aðgerðir á landamærum og of mikla slökun á aðgerðum innanlands. Þessi mistök hafa valdið miklu heilsufarslegu og efnahagslegu tjóni.

Hver á þá langtímastefnan á Íslandi að vera? Við virðumst hafa ákveðið að halda okkur við bælingarstefnu og erfitt er að skipta um hest í miðri á. Þessi leið er skynsamleg á margan hátt en hefur eins og áður segir ákveðna ókosti. Það er mikilvægt að forðast endurteknar bylgjur og þær miklu raskanir sem þeim fylgja.

Fyrst þarf að ná niðurlögum þriðju bylgju faraldursins, og aðgerðir þar hefðu vissulega mátt hefjast fyrr en gert var.

Þegar komið er á jafnvægi er nauðsynlegt að viðhalda smitstuðli undir einum þar til meirihluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur. Spóla ætti til baka í aðgerðir sem voru hér fyrir 7. september og halda sig u.þ.b. þar. Framhaldsskólar ættu að vera opnir og kennarar í viðkvæmum hópum að halda sig heima og kenna þaðan. Stórar hópamyndanir án takmarkana eru hins vegar úr sögunni í bili og halda þarf í fjarlægðartakmarkanir, sprittun og notkun grímna.

Varðandi landamærin, þá koma ekki ferðamenn hingað ef nýgengi smita er svona hátt. En þegar smitstuðull innanlands hefur haldist undir einum í nokkurn tíma má slaka örlítið á, þ.e.a.s. halda áfram skimun en breyta sóttkví í heimkomusmitgát. Þetta er innan meðalhófs því hætta á veldisvexti er lítil ef smitstuðull innanlands er undir 1. Önnur leið væri að skima ferðamenn í heimalandi nokkrum dögum fyrir komu og hafa seinni skimun við komu til landsins. Þetta einfaldar ferlið á landamærum og hafa sumar þjóðir þegar tekið þetta upp,“ segir Jón Ívar í greininni.

Hann segir lítið fjallað um þá staðreynd að dauðsföllum hefur ekki fjölgað næstum því eins mikið og í vor. „Það finnst mér merkilegt og undarlegt að það fái nánast enga umfjöllun. Þetta hefur eflaust margar skýringar, t.d. er að meðaltali yngra fólk að smitast, þeir veikustu féllu frá í vor og e.t.v. er eitthvað um krossónæmi en það er líka verið að skima miklu meira,“ segir í grein Jóns Ívars Einarssonar en hana er hægt að lesa í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert