Mikil aukning á áratug

Barnshafandi.
Barnshafandi. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tíðni meðgöngusykursýki hér á landi var 16,3% árið 2019 og hefur aldrei verið jafn há. Meðal skýringa á aukinni tíðni meðgöngusykursýki eru hækkandi barneignaraldur kvenna auk þess sem tíðni ofþyngdar og offitu hefur aukist í samfélaginu á síðustu árum.

Þetta kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.

Í Talnabrunni er rakið að meðgöngusykursýki hafi aukist verulega síðastliðinn áratug. Til samanburðar við að 16,3% þungaðra kvenna hafi greinst árið 2019 greindist aðeins 2,1% þeirra með sykursýki á meðgöngu árið 2006. Þó ber að hafa í huga að árið 2012 var gerð breyting á klínískum leiðbeiningum um skimun, greiningu og meðferð sykursýki á meðgöngu. Þá voru greiningarskilmerki sykursýkinnar rýmkuð svo fleiri greinast en áður. Ljóst er þó að aukning hefur orðið á síðustu árum. Mest aukning hefur orðið hjá konum 35 ára og eldri. Í þeim hópi greindist ein af hverjum fjórum konum með meðgöngusykursýki árið 2019.

Fram kemur einnig í Talnabrunni að háþrýstingur, sem greinist á meðgöngu, geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir bæði konu og barn. Hann geti þróast yfir í meðgöngueitrun og í alvarlegustu tilfellum yfir í fæðingarkrampa. Helstu áhættuþættir fyrir háþrýstingssjúkdómum eru m.a. aldur móður yfir 40 ára, fyrsta meðganga, offita og fjölburameðganga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert