Netsvikarar herja á íþróttafélög

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Lögregla hefur orðið vör við að skúrkar reyni að misnota erfiða tíma í faraldrinum til að stela frá íþróttahreyfingunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá UMFÍ. 

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við auknum fjölda netglæpa gagnvart íþróttahreyfingunni. Til að koma í veg fyrir að fólk í íþróttahreyfingunni lendi í svikaneti hefur lögreglan búið til yfirlit um helstu aðferðir netglæpamanna og tekið saman lista yfir helstu ráðin gegn þeim,“ segir í tilkynningunni. 

„Nú þegar hafa nokkur íþróttafélög í landinu orðið fyrir barðinu á svindli sem þessu og tapað talsverðu fé. Svik með tölvupóstum og beiðni um millifærslur er algengasti netglæpurinn. Hann veldur mestum fjárhagslegum skaða á Íslandi og í heiminum öllum. Heildartjón á Íslandi vegna netglæpa er talið nema nærri einum og hálfum milljarði króna á síðastliðnum þremur árum.“

mbl.is